Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Fram kemur að lægðin sé farin að grynnast og þokast til norðvesturs inn á land. Því hafi dregið nokkuð úr vindi austast á landinu.
„Síðdegis dregur smám saman úr vindi í öðrum landhlutum, nema að það helst hvasst norðvestantil fram á nótt. Norðanáttinni fylgir snjókoma eða slydda allvíða, en á sunnanverðu landinu er úrkomulítið og svo verður væntanlega einnig austanlands seinnipartinn. Hiti 0 til 6 stig í dag, hlýjast sunnanlands,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Ófært á Steingrímsfjarðarheiði
Á vef Vegagerðarinnar segir að ófært sé á Dynjandisheiði og á Klettsháls. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er víða á öðrum leiðum á Vestfjörðum. Hálkublettir eru á Bröttubrekku og Fróðárheiði.
Á Norðurlandi er ófært í Höfðahvefi og á Víkurskarði, þungfært í Almenningnum en þæfingsfærð í Fljótum, á Ólafsfjarðarvegi og á Svalbarðsströnd. Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru á öðrum leiðum.
Á Norðausturlandi er ófært á Hófaskarði. Þæfingsfærð er á Möðrudalsöræfum og á Raufarhafnarvegi en snjóþekja eða hálka er á flestum öðrum leiðum.
Á Austurlandi er þungfært á Fagradal og á Heiðarenda, þæfingsfærð er á Skriðdalsvegi, Hróarstunguvegi og á Lagarfossvegi. Krapir er á Fjarðarheiði og eitthvað er um hálku eða hálkubletti á öðrum leiðum. Ófært er á Öxi.
Útlit fyrir stífa og kalda norðanátt
Á morgun er spáð norðaustan stinningskalda eða allhvössum vindi. Él norðan- og austanlands, en bjartviðri sunnan heiða. Hlýnar lítillega.
Þegar á heildina er litið er útlit fyrir stífa og fremur kalda norðlæga átt næstu daga og ofankoma viðloðandi á norðurhelmingi landsins.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Norðaustan 8-15 m/s. Él eða slydduél norðan- og austanlands með hita um eða yfir frostmarki. Bjartviðri sunnan heiða og hiti að 8 stigum yfir daginn.
Á miðvikudag: Norðan 8-15, él og vægt frost, en bjartviðri á sunnanverðu landinu og frostlaust að deginum.
Á fimmtudag (skírdagur): Norðan 10-18, hvassast við norðurströndina. Snjókoma eða slydda á norðanverðu landinu, en þurrt að kalla sunnanlands. Hiti kringum frostmark.
Á föstudag (föstudagurinn langi): Minnkandi norðanátt og él á Norður- og Austurlandi, vægt frost. Léttskýjað sunnan heiða og hiti 2 til 7 stig yfir daginn.
Á laugardag: Fremur hæg norðlæg átt og þurrt, en stöku él austanlands og bætir í vind og úrkomu þar seinnipartinn. Hiti breytist lítið.
Á sunnudag (páskadagur): Líkur á hvassri norðaustanátt með ofankomu, en þurrt á suðvestanverðu landinu.