Þættirnir heita Stóra stundin og verða frumsýndir á Stöð 2 sunnudaginn 4. maí, en í þeim fá áhorfendur að fylgjast með fólki upplifa augnablik sem munu lifa með þeim út ævina. Þannig verður fylgst með barni koma í heiminn, brúðkaupi, erfiðustu kokkakeppni heims og fegurðarsamkeppni.
Sigrún Ósk hefur sagt upp störfum á Stöð 2 svo þáttaröðin mun verða hennar síðasta á skjánum, að minnsta kosti í bili.
„Það er óneitanlega skrítin tilfinning enda á þessi vinnustaður mjög sérstakan sess í mínu hjarta. Ég hef notið hvers dags í sextán ár og finnst ég afar heppin að hafa fengið að sinna því starfi að búa til sjónvarpsefni fyrir áhorfendur stöðvarinnar í allan þennan tíma.“
Meðfylgjandi er fyrsta stiklan sem birtist úr þáttunum, en óhætt er að segja að hún kalli fram sterk viðbrögð.

Á ferli sínum hjá Stöð 2 hefur Sigrún Ósk meðal annars sent frá sér sjónvarpsþáttaraðir á borð við Leitina að upprunanum, sem hún hefur hlotið Edduverðlaun fyrir, Neyðarlínuna og Margra barna mæður.
Hún var gestur í Einkalífinu árið 2020 þar sem hún var á einlægum nótum.