Uppgjörið: Fram - FH 34-33 | Fram í úrslit eftir tvíframlengdan leik Hinrik Wöhler skrifar 27. apríl 2025 22:30 Eftir 12 ára bið er Fram á leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn. Vísir/Vilhelm Framarar tryggðu sér farseðilinn í úrslitaeinvígi Olís-deildar karla í handbolta með sigri á FH í tvíframlengdum leik í Lambhaga-höllinni í kvöld. Biðin hefur verið löng hjá Fram en þetta er í fyrsta sinn síðan 2013 sem liðið kemst í úrslitin. Það var talsvert um stimpingar í upphafi leiks og spennustigið var hátt. Vörn Framara var gríðarlega þétt í upphafi leiks og komust Hafnfirðingar ekki lönd né strönd fyrstu mínúturnar. Arnór Máni Daðason, markvörður Fram, lokaði markinu og vörn Framara gaf engin færi á sér. Hafnfirðingar tóku leikhlé eftir tíu mínútna leik enda var staðan orðin 6-1 fyrir Fram. FH-ingar voru aðeins búnir að skora tvö mörk þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Gestirnir vöknuðu til lífsins um miðbik fyrri hálfleiks og skoruðu nokkur mörk úr hraðaupphlaupum og vítaköstum. FH-ingar náðu að laga stöðuna og minnkuðu muninn í eitt mark þegar átta mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Framarar áttu hins vegar góðan endasprett og fóru með fjögurra marka forystu inn í hálfleik, 14-10. Lætin í Lambhaga-höllinni jukust eftir því sem leið á leikinn og það heyrðist varla skil milli manna. FH-ingar náðu að laga stöðuna í upphafi seinni hálfleiks þegar Framarar fengu tvær tveggja mínútna brottvísanir með skömmu millibili. Munurinn hélst þó í þremur til fjórum mörkum lengst af í seinni hálfleik, en síðan fór að síga á ógæfuhliðina fyrir Framara Hafnfirðingar minnkuðu muninn í tvö mörk þegar sjö mínútur voru eftir og Framarar hikstuðu í sókninni um sama leyti. FH-ingar jöfnuðu leikinn þegar fáar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og fengu gullið tækifæri til að stela sigrinum í síðustu sókninni, en tókst ekki að útfæra hana nægilega vel. Staðan var 24-24 eftir 60 mínútur og grípa þurfti til framlengingar. Liðin skiptust á að skora í framlengingunni og líkt og í venjulegum leiktíma fengu Hafnfirðingar tækifæri til að klára leikinn í síðustu sókninni en nýttu það ekki. Eftir 70 mínútna leik var staðan 28-28 og þurfti að grípa til annarrar framlengingar. Fram komst í tveggja marka forystu í seinni framlengingunni en glutraði niður forskotinu skömmu síðar. Staðan var 34-33, Fram í vil, þegar leiktíminn var um það bil að renna út en FH-ingar fengu víti á síðustu andartökum framlengingarinnar. Arnór Máni Daðason, markvörður Fram, varði vítið við mikinn fögnuð í stúkunni og tryggði liðinu sæti í úrslitum. Atvik leiksins Símon Michael Guðjónsson hafði þá skorað úr öllum sex vítaköstum sínum í leiknum þegar FH fékk víti undir lok seinni framlengingar. Arnór Máni Daðason, markvörður Fram, hafði haft hægt um sig í markinu í framlengingunum tveimur. Arnór steig upp á ögurstundu, varði vítið frá Símoni og tryggði Framörum sigurinn og þar með þeirra þriðja sigur í einvíginu. Stjörnur og skúrkar Skyttan unga, Marel Baldvinsson, steig upp þegar leið á leikinn og skoraði fjögur mikilvæg mörk í framlengingunum tveimur. Það hafði aðeins dregið af máttarstólpum Framliðsins, Reyni Þór Stefánssyni og Rúnari Kárasyni, og þá datt Marel í gang, einmitt þegar Framarar þurftu á honum að halda. Arnór Máni Daðason varði vel í marki Fram, sér í lagi í fyrri hálfleik, og lagði grunninn að góðu forskoti Fram snemma leiks. Birkir Fannar Bragason kom inn á um miðbik seinni hálfleiks og átti góðar vörslur sem komu Hafnfirðingum inn í framlenginguna. Daníel Freyr Andrésson hafði hins vegar ekki fundið taktinn í marki FH framan af. FH-ingar geta nagað sig í handarbökin, þar sem þeir fengu tvö tækifæri til að tryggja sér sigurinn undir lok venjulegs leiktíma og fyrri framlengingar en útfærðu sóknirnar ekki nægilega vel. Dómarar Hið reynslumikla dómaratvíeyki, Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, héldu utan um leikinn í kvöld. Þeir stóðu í ströngu snemma leiks og stöðvuðu leikinn ítrekað til að skoða ýmis vafaatriði. Tvíeykið var búið að fara þrisvar í skjáinn áður en fyrri hálfleikur var hálfnaður, án þess þó að draga upp rauða spjaldið eða taka stórar ákvarðanir. Þetta var alls ekki auðveldur leikur til að dæma, en þeir komust ágætlega frá honum þrátt fyrir að bæði lið hafi verið ósátt við ýmis atriði í þessum 80 mínútna handboltaleik. Stemning og umgjörð Það var frábær stemning í Lambhaga-höllinni í kvöld en stuðningsmenn beggja liða létu vel í sér heyra og byrjuðu að kyrja söngva löngu áður en leikurinn hófst. Stemning eins og gerist best í úrslitakeppninni. Framarar drógu grillið fram og opnuðu húsið 90 mínútum fyrir leik. Undir lok leiks ætlaði þakið að rifna af húsinu þegar sigurinn var í hús eftir tvíframlengdan leik. Viðtöl Ólafur: „Ég held að ég var að spila minn síðasta handboltaleik í bili“ Ólafur Gústafsson ætlar að segja þetta gott í bili.FH Handbolti Ólafur Gústafsson stóð vaktina í vörn FH lungann af leiknum og var skiljanlega niðurlútur í leikslok eftir spennuþrunginn leik. „Þetta ræðst á síðustu sekúndu. Fáum ekkert eðlilega góðan stuðning í dag, keyrir okkur áfram allan leikinn og missum aldrei trúna þrátt fyrir að elta nánast allan leikinn. Á endanum vantar eitthvað upp á,“ sagði Ólafur skömmu eftir leik. FH-ingar fóru hægt af stað í leiknum og lentu fljótlega undir. Hafnfirðingar náðu á endanum að vinna upp forskotið en Ólafur er ekki alveg viss hvað orsakar slæma byrjun FH í leiknum. „Erfitt að segja, við erum að missa boltann of auðveldlega og fá lélegar sóknir. Þeir eru að keyra á okkur og komast í forskot. Svo fer leikurinn í jafnvægi eftir að við vinnum okkur til baka, svo er jafnt allan leikinn.“ Hafnfirðingar fá kjörið tækifæri til að klára leikinn í venjulegum leiktíma og fyrri framlengingu en það gekk ekki eftir. „Auðvitað hefði verið óskandi að fá skot á markið. Einhver að setja hausinn undir sig og reyna að klára þetta. Fáum tvisvar eða þrisvar möguleikann á þá, það er oft erfitt að setja upp svona sóknir. Þær enda oft með fríkasti ef enginn tekur á skarið,“ sagði Ólafur um síðustu sóknir FH. Ólafur, sem er 36 ára, á langan og farsælan feril að baki en hann vann meðal annars Meistaradeild Evrópu með Flensburg á sínum tíma. Hann ætlar hins vegar að láta gott heita eftir þetta tímabil. Hvernig er standið á þér og hvað tekur við hjá þér á næsta tímabili? „Ég er í ótrúlegu standi en ég held að ég var að spila minn síðasta handboltaleik í bili,“ sagði Ólafur. Þú ætlar að segja þetta gott í bili sem sagt? „Já, ég held það. Ég held að ég sé búinn að ákveða mig,“ sagði Ólafur að lokum. Handbolti Olís-deild karla FH Fram
Framarar tryggðu sér farseðilinn í úrslitaeinvígi Olís-deildar karla í handbolta með sigri á FH í tvíframlengdum leik í Lambhaga-höllinni í kvöld. Biðin hefur verið löng hjá Fram en þetta er í fyrsta sinn síðan 2013 sem liðið kemst í úrslitin. Það var talsvert um stimpingar í upphafi leiks og spennustigið var hátt. Vörn Framara var gríðarlega þétt í upphafi leiks og komust Hafnfirðingar ekki lönd né strönd fyrstu mínúturnar. Arnór Máni Daðason, markvörður Fram, lokaði markinu og vörn Framara gaf engin færi á sér. Hafnfirðingar tóku leikhlé eftir tíu mínútna leik enda var staðan orðin 6-1 fyrir Fram. FH-ingar voru aðeins búnir að skora tvö mörk þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Gestirnir vöknuðu til lífsins um miðbik fyrri hálfleiks og skoruðu nokkur mörk úr hraðaupphlaupum og vítaköstum. FH-ingar náðu að laga stöðuna og minnkuðu muninn í eitt mark þegar átta mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Framarar áttu hins vegar góðan endasprett og fóru með fjögurra marka forystu inn í hálfleik, 14-10. Lætin í Lambhaga-höllinni jukust eftir því sem leið á leikinn og það heyrðist varla skil milli manna. FH-ingar náðu að laga stöðuna í upphafi seinni hálfleiks þegar Framarar fengu tvær tveggja mínútna brottvísanir með skömmu millibili. Munurinn hélst þó í þremur til fjórum mörkum lengst af í seinni hálfleik, en síðan fór að síga á ógæfuhliðina fyrir Framara Hafnfirðingar minnkuðu muninn í tvö mörk þegar sjö mínútur voru eftir og Framarar hikstuðu í sókninni um sama leyti. FH-ingar jöfnuðu leikinn þegar fáar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og fengu gullið tækifæri til að stela sigrinum í síðustu sókninni, en tókst ekki að útfæra hana nægilega vel. Staðan var 24-24 eftir 60 mínútur og grípa þurfti til framlengingar. Liðin skiptust á að skora í framlengingunni og líkt og í venjulegum leiktíma fengu Hafnfirðingar tækifæri til að klára leikinn í síðustu sókninni en nýttu það ekki. Eftir 70 mínútna leik var staðan 28-28 og þurfti að grípa til annarrar framlengingar. Fram komst í tveggja marka forystu í seinni framlengingunni en glutraði niður forskotinu skömmu síðar. Staðan var 34-33, Fram í vil, þegar leiktíminn var um það bil að renna út en FH-ingar fengu víti á síðustu andartökum framlengingarinnar. Arnór Máni Daðason, markvörður Fram, varði vítið við mikinn fögnuð í stúkunni og tryggði liðinu sæti í úrslitum. Atvik leiksins Símon Michael Guðjónsson hafði þá skorað úr öllum sex vítaköstum sínum í leiknum þegar FH fékk víti undir lok seinni framlengingar. Arnór Máni Daðason, markvörður Fram, hafði haft hægt um sig í markinu í framlengingunum tveimur. Arnór steig upp á ögurstundu, varði vítið frá Símoni og tryggði Framörum sigurinn og þar með þeirra þriðja sigur í einvíginu. Stjörnur og skúrkar Skyttan unga, Marel Baldvinsson, steig upp þegar leið á leikinn og skoraði fjögur mikilvæg mörk í framlengingunum tveimur. Það hafði aðeins dregið af máttarstólpum Framliðsins, Reyni Þór Stefánssyni og Rúnari Kárasyni, og þá datt Marel í gang, einmitt þegar Framarar þurftu á honum að halda. Arnór Máni Daðason varði vel í marki Fram, sér í lagi í fyrri hálfleik, og lagði grunninn að góðu forskoti Fram snemma leiks. Birkir Fannar Bragason kom inn á um miðbik seinni hálfleiks og átti góðar vörslur sem komu Hafnfirðingum inn í framlenginguna. Daníel Freyr Andrésson hafði hins vegar ekki fundið taktinn í marki FH framan af. FH-ingar geta nagað sig í handarbökin, þar sem þeir fengu tvö tækifæri til að tryggja sér sigurinn undir lok venjulegs leiktíma og fyrri framlengingar en útfærðu sóknirnar ekki nægilega vel. Dómarar Hið reynslumikla dómaratvíeyki, Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, héldu utan um leikinn í kvöld. Þeir stóðu í ströngu snemma leiks og stöðvuðu leikinn ítrekað til að skoða ýmis vafaatriði. Tvíeykið var búið að fara þrisvar í skjáinn áður en fyrri hálfleikur var hálfnaður, án þess þó að draga upp rauða spjaldið eða taka stórar ákvarðanir. Þetta var alls ekki auðveldur leikur til að dæma, en þeir komust ágætlega frá honum þrátt fyrir að bæði lið hafi verið ósátt við ýmis atriði í þessum 80 mínútna handboltaleik. Stemning og umgjörð Það var frábær stemning í Lambhaga-höllinni í kvöld en stuðningsmenn beggja liða létu vel í sér heyra og byrjuðu að kyrja söngva löngu áður en leikurinn hófst. Stemning eins og gerist best í úrslitakeppninni. Framarar drógu grillið fram og opnuðu húsið 90 mínútum fyrir leik. Undir lok leiks ætlaði þakið að rifna af húsinu þegar sigurinn var í hús eftir tvíframlengdan leik. Viðtöl Ólafur: „Ég held að ég var að spila minn síðasta handboltaleik í bili“ Ólafur Gústafsson ætlar að segja þetta gott í bili.FH Handbolti Ólafur Gústafsson stóð vaktina í vörn FH lungann af leiknum og var skiljanlega niðurlútur í leikslok eftir spennuþrunginn leik. „Þetta ræðst á síðustu sekúndu. Fáum ekkert eðlilega góðan stuðning í dag, keyrir okkur áfram allan leikinn og missum aldrei trúna þrátt fyrir að elta nánast allan leikinn. Á endanum vantar eitthvað upp á,“ sagði Ólafur skömmu eftir leik. FH-ingar fóru hægt af stað í leiknum og lentu fljótlega undir. Hafnfirðingar náðu á endanum að vinna upp forskotið en Ólafur er ekki alveg viss hvað orsakar slæma byrjun FH í leiknum. „Erfitt að segja, við erum að missa boltann of auðveldlega og fá lélegar sóknir. Þeir eru að keyra á okkur og komast í forskot. Svo fer leikurinn í jafnvægi eftir að við vinnum okkur til baka, svo er jafnt allan leikinn.“ Hafnfirðingar fá kjörið tækifæri til að klára leikinn í venjulegum leiktíma og fyrri framlengingu en það gekk ekki eftir. „Auðvitað hefði verið óskandi að fá skot á markið. Einhver að setja hausinn undir sig og reyna að klára þetta. Fáum tvisvar eða þrisvar möguleikann á þá, það er oft erfitt að setja upp svona sóknir. Þær enda oft með fríkasti ef enginn tekur á skarið,“ sagði Ólafur um síðustu sóknir FH. Ólafur, sem er 36 ára, á langan og farsælan feril að baki en hann vann meðal annars Meistaradeild Evrópu með Flensburg á sínum tíma. Hann ætlar hins vegar að láta gott heita eftir þetta tímabil. Hvernig er standið á þér og hvað tekur við hjá þér á næsta tímabili? „Ég er í ótrúlegu standi en ég held að ég var að spila minn síðasta handboltaleik í bili,“ sagði Ólafur. Þú ætlar að segja þetta gott í bili sem sagt? „Já, ég held það. Ég held að ég sé búinn að ákveða mig,“ sagði Ólafur að lokum.