Upp­gjörið: Aftur­elding - Valur 29-26 | Ein­vígið ræðst í odda­leik

Þorsteinn HJálmsson skrifar
Blær Hinriksson er lykilmaður í liði Aftureldingar.
Blær Hinriksson er lykilmaður í liði Aftureldingar. Vísir/Jón Gautur

Valur og Afturelding munu leika oddaleik á föstudaginn um sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta. Varð það ljóst eftir að Afturelding sigraði fjórða leik liðanna í einvíginu og jafnaði það í 2-2. Lokatölur að Varmá 29-26, en þess ber að geta að aðeins hafa komið heimasigrar í einvíginu hingað til.

Valsmenn byrjuðu með boltann og hófu leikinn með sjö sóknarmenn gegn sex varnarmönnum Aftureldingar. Heimamenn hófu þó leikinn betur og nýttu sér það að Björgvin Páll var oft á tíðum ekki kominn í markið sitt þegar Mosfellingum tókst að stela boltanum. Staðan 7-4 eftir u.þ.b. tíu mínútna leik, heimamönnum í vil.

Valsmönnum tókst þó að jafna leikinn á örskotsstund og mátti finna að Mosfellingum í stúkunni leist ekkert á blikuna. Næstu mínútur fylgdust liðin að í markaskori.

Á 20. mínútu tók Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, leikhlé þar sem Valsmenn voru komnir í tveggja marka forystu, 10-12.

Reyndist það vel þar sem heimamönnum tókst að skora sex mörk gegn aðeins einu hjá Valsmönnum fram að hálfleik. Frábær viðsnúningur sérstaklega í ljósi þess að Afturelding fékk tvisvar tveggja mínútna brottvísun á þessum kafla en Valsmenn aðeins einu sinni. Staðan 16-13 í hálfleik fyrir Aftureldingu.

Mosfellingum gekk mjög vel með að halda í forystuna í síðari hálfleik, en var forysta þeirra ávallt á bilinu fjögur til fimm mörk.

Það var ekki fyrr en u.þ.b. sex mínútur voru eftir af leiknum þar sem Valsmenn náðu ágætis áhlaupi. Tókst þeim að minnka muninn niður í tvö mörk þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum.

Ekki tókst þeim að komast nær heimamönnum og lauk leiknum að lokum með þriggja marka sigri Aftureldingar.

Atvik leiksins

Mikil barátta var í leiknum. Var sérstaklega gaman að fylgjast með rimmu Róberts Arons Hostert og Birgis Steins Jónssonar, en voru þeir að kýtast allan leikinn og rétt rúmlega það.

Agnar Smári Jónsson, skytta Vals, missti svo hausinn undir lok leiksins þegar ljóst var að leikurinn væri að fara frá Valsmönnum. Hljóp hann þá Stefán Magna Hjartarson niður í hraðaupphlaupi og fékk auk rauða spjaldsins blátt spjald.

Stjörnur og skúrkar

Einar Baldvin Baldvinsson, markmaður Aftureldingar, var frábær hjá heimamönnum og var með 35% markvörslu eða 14 varða bolta.

Ihor Kopyshynskyi var svo ótrúlegur í þeim færum sem hann fékk í kvöld. Skoraði sjö mörk úr átta skotum og var drjúgur fyrir heimamenn.

Agnar Smári er skúrkurinn. Ljótt brot undir lok leiksins sem mun að öllum líkindum leiða til leikbanns. Það er skarð fyrir skildi fyrir Valsmenn sem eru á flæðiskeri standir hvað varðar örvhenta leikmenn.

Dómarar

Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson voru að dæma sinn fyrsta leik í úrslitakeppninni þetta vorið og er óhætt að segja að þeir hafi komist vel frá sínu. Lítið út á þeirra frammistöðu að setja, frábærir í raun.

Stemning og umgjörð

Ekki var það heppilegt að þetta sama kvöld voru bæði karlalið Aftureldingar og Vals að leika í Bestu deildinni í fótbolta. Bitnaði það mögulega á fjölda áhorfenda á leikjum kvöldsins hjá þessum liðum. Þrátt fyrir það var vel mætt í íþróttahúsið að Varmá og mikil læti í húsinu og stemningin heilt yfir góð. Stóðu t.a.m. allir síðustu sjö mínútur leiksins og létu vel í sér heyra.

„Skrifað í skýin að fara í fimm leiki“

Óskar Bjarni, þjálfari Vals.Vísir/Jón Gautur

„Dálítið slæmur kafli þarna í lok fyrri hálfleik sem var of langur hjá okkur og mörg klikk úr dauðafærum hjá okkur í öllum leiknum. Einar Baldvin bara að verja helvíti vel þar. Það tók okkur aðeins of langan tíma að festa vörnina hjá okkur en mér fannst hún mjög góð í lokin,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, um gang leiksins eftir tapið í kvöld.

„Þeir eru örlítið markvissari en við. Það koma þarna leikkerfi sem við erum hreinlega í vandræðum með og þurfum að leysa fyrir föstudaginn, en annars bara skemmtileg rimma og bara dálítið skrifað í skýin að fara í fimm leiki, bara gaman að þessu.“

Valsarar náðu áhlaupi undir lok leiksins, sem kom þó of seint að mati Óskars Bjarna.

„Það var dálítið seint sem við náðum að setja örlítið meiri pressu á þá, af því að þeir fara náttúrulega í sumarfrí ef þeir tapa. Þetta hefði mátt gerast aðeins fyrr, það vantaði bara örlítið upp á til að klára það.“

Valsmenn hófu leikinn í sjö á sex. Aðspurður hver pælingin væri á bak við það hafði Óskar Bjarni þetta að segja.

„Það var bara eitthvað að hafa gaman af þessu. Ég er ekki þekktur fyrir að vera mikill sjö á sex kall. Mig langaði að koma sjö á sex inn í spilið. Mig langaði að gera það aðeins í seinni, en ég var búinn með öll helvítis leikhléin. Við vildum byrja með ákveðna vörn og þess vegna hentaði að fara í sjö á sex.“

Ertu með skilaboð til Valsara fyrir föstudaginn?

„Þeir sem mættu í dag voru mjög góðir, en auðvitað Afturelding og Valur að keppa í fótboltanum í kvöld og ansi margir sem misstu af þessu. Ég á því von á því að við þurfum að fjölmenna. Það er allavega ljóst að Mosfellsbærinn kemur allur, þannig að ég vil sjá fleiri Valsara en Mosfellinga á okkar heimavelli,“ sagði Óskar Bjarni að lokum.


Tengdar fréttir

„Treysti bara á að allt þetta fólk mæti“

„Þetta eru bara tvö hörku lið, annað og fjórða sætið í deildinni og bara fiffty-fiffty leikir og við vitum að vera á heimavelli er alltaf auka fimm prósent. Það er búið að duga í fjögur skipti en núna þurfum við bara að ná að stela einum á útivelli,“ sagði Árni Bragi Eyjólfsson, leikmaður Aftureldingar, eftir sigur gegn Val. Úrslitin þýða að fram undan er oddaleikur á föstudaginn um sæti í úrslitaeinvíginu við Fram.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira