Íslenski boltinn

Sjáðu partýið í Kópa­vogi, Gylfa af­greiða Fram og nýliðana í stuði

Sindri Sverrisson skrifar
Tobias Thomsen og Finnur Tómas Pálmason voru báðir á skotskónum í Kópavogi í gærkvöld.
Tobias Thomsen og Finnur Tómas Pálmason voru báðir á skotskónum í Kópavogi í gærkvöld. vísir/Diego

Breiðablik og KR skildu jöfn, 3-3, í stórkostlegum leik í Bestu deild karla í fótbolta í gær. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir Víkinga í 3-2 sigri á Fram og nýliðar Aftureldingar skelltu Stjörnunni, 3-0. Öll mörkin má nú sjá á Vísi.

Tobias Thomsen kom Breiðabliki í 2-0 gegn KR í seinni hálfleik en gestirnir svöruðu með þremur mörkum á korters kafla sem þeir Eiður Gauti Sæbjörnsson, Jóhannes Kristinn Bjarnason og Finnur Tómas Pálmason skoruðu. Varamaðurinn Kristófer Ingi Kristinsson jafnaði metin í uppbótartíma.

Klippa: Mörk Breiðabliks og KR

Í Víkinni skoraði Davíð Örn Atlason með skalla eftir hornspyrnu Gylfa og Erlingur Agnarsson bætti við marki á 27. mínútu eftir undirbúning Helga Guðjónssonar. Vuk Oskar Dimitrijevic minnkaði muninn eftir skemmtilega sókn Fram og staðan 2-1 í hálfleik. 

Gylfi gerði svo út um leikinn með marki á 78. mínútu en Róbert Hauksson náði þó að minnka muninn í uppbótartíma.

Klippa: Mörk Víkings og Fram

Í Mosfellsbænum vann Afturelding sinn annan sigur á tímabilinu. Hrannar Snær Magnússon skoraði fyrsta markið með frábærum hætti, eftir magnaðan sprett og stoðsendingu Elmars Kára Enessonar Cogic.

Georg Bjarnason og Aron Jóhannsson bættu svo við mörkum á sjö mínútna kafla um miðjan seinni hálfleik.

Klippa: Mörk Aftureldingar gegn Stjörnunni

Víkingur, Vestri og Breiðablik eru þar með jöfn að stigum í efstu sætum deildarinnar, með tíu stig hvert, en þar á eftir koma KR, ÍBV og Afturelding öll með sjö stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×