Körfubolti

Martin flottur þegar Alba Ber­lín vann lokaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson var öflugur í sigurleik ALBA Berlin í kvöld.
Martin Hermannsson var öflugur í sigurleik ALBA Berlin í kvöld. Getty/Matthias Renner

Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlin hafa verið á miklu skriði að undanförnu og unnu fjórða sigurinn í röð í þýska körfuboltanum í kvöld.

Alba vann þá 32 stiga sigur á Göttingen, 101-69, eftir að hafa verið átján stigum yfir í hálfleik, 55-37.

Þetta var lokaleikur liðsins á tímabilinu en nægði ekki til að koma liðinu beint í úrslitakeppnina. Sex efstu sætin fara beint í úrslitakeppnina en næstu fjögur lið spila um síðustu tvö sætin í umspili.

Alba Berlin endaði með 36 stig eins og liðin í fjórða til sjöunda sæti en endaði neðst af þeim í innbyrðis leikjum. Það þýðir að liðið fer í umspilið um sæti í úrslitakeppninni og mætir þar Mitteldeutscher sem ber nú nafn styrktaraðilans Syntainics MBC.

Martin var næststigahæstur í liðinu með 13 stig á nítján mínútum auk þess að gefa sjö stoðsendingar.

Útlitið var ekki bjart um tíma í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni en frábær endasprettur er að skila liðinu inn í umspilið. Þetta var sjöundi sigur liðsins í síðustu átta deildarleikjum.

Liðið saknaði Martins þegar hann var meiddur en hann er sem betur fer fyrir Berlínarliðið að koma sterkur inn á lokasprettinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×