Sport

Bak­garður 101: „Ætla að níðast á þessum líkama og sjá hvað hann getur“

Aron Guðmundsson skrifar
Mari Järsk er á meðal keppenda í bakgarðshlaupinu Bakgarður 101 sem hefst í Öskjuhlíð núna klukkan níu
Mari Järsk er á meðal keppenda í bakgarðshlaupinu Bakgarður 101 sem hefst í Öskjuhlíð núna klukkan níu Vísir/Sigurjón

Hlaupa­drottningin Mari Järsk ætlar að kanna þol­mörk líkama síns enn og aftur í bak­garðs­hlaupinu í Öskju­hlíð sem hefst núna klukkan níu. Hún verður þó einnig með annan hatt á meðan á hlaupinu stendur. 

Mari er lík­legast þekktasta and­lit bak­garðs­hlaupa senunnar hér á landi, þessi orku­bolti leggur ávallt allt í sölurnar og hún verður á meðal þeirra um tvö hundruð hlaupara sem hefja Bak­garð 101 í Öskju­hlíðinni klukkan níu.

„Ég er búin að vera ógeðs­lega góð. Ég tek þessa ákvörðun með mjög stuttum fyrir­vara og hef því ekkert fengið að stilla mig inn á stressið og undir­búningurinn hefur verið lítill. Það er rosa þægi­legt,“ segir Mari í sam­tali við íþrótta­deild.

Mari hljóp 50 hringi í bak­garðs­hlaupinu í Elliðaár­dal í október í fyrra og þá með rifinn liðþófa en hver er staðan á henni núna?

„Staðan er örugg­lega verri en hún var þar sem ég hef ekki gert neitt í mínum málum. Ég og maðurinn minn erum búin að vera reyna eignast barn síðasta hálfa árið og það átti bara að vera planið þangað til það myndi gerast. Undir­búningurinn hjá mér fyrir þetta hlaup er lítill sem enginn þannig séð. Ég keyrði aðeins á þetta núna síðasta mánuðinn fyrir hlaup og það hjálpar meiðslunum ekkert en and­lega er ég fárán­lega vel stödd og ætla bara að níðast á þessum líkama og sjá einu sinni enn hvað hann getur.“

Mari hefur ekki sett sér mark­mið fyrir komandi hlaup en hún á ekki von á því að núverandi Ís­lands­met, sem stendur í 62 hringum og var sett af Þor­leifi Þor­leifs­syni í fyrra, verði slegið.

Algjör draumur að gera þetta

Hlaupið er sér­stakt fyrir Mari því hún er ekki aðeins einn af kepp­endum þess, heldur líka þjálfari. Því í þjálfun hefur hún fundið ástríðu sinni far­veg.

„Ég hef alltaf verið hrædd við höfnun og efast um að ein­hver myndi mæta á æfingar en svo hefur þetta gengið svo ógeðs­lega vel. Ekkert út frá ein­hverri brjálæðis­legri mætingu heldur er bara ein­hver ótrú­lega fal­legur kjarni sem vill bara ná árangri og það er held ég svo ógeðs­lega fal­legt. Ég er frekar harð­kjarna þjálfari, ekki svona mússímús þjálfari, og þetta er bara svo stur­lað. Það eru örugg­lega svona fimmtán stelpur sem voru að redda sér miða í bak­garðs­hlaupið á síðustu stundu og ætla að vera með. Það sýnir mér allt sem segja þarf. Þær eru bara komnar til að vera og það er svo fal­legt. Ég bjóst ekki við að mér myndi einu sinni finnast þetta gaman en ég er á þeim stað núna að vilja bráðum bara vinna að fullu við þetta því það er al­gjör draumur að gera þetta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×