Hvorki Já símaskrá né starfsstöð fyrirtækisins á Ísafirði eru til sölu. Þetta voru svörin sem Halldór Halldórsson, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, fékk á fundi sínum með stjórnarformanni Já símaskrár í dag að því er fram kemur á vef Bæjarins besta.
Halldór bæjarstjóri óskaði eftir viðræðum við stjórnendur Já símaskrár fyrir viku í kjölfar þess að fyrirtækið ákvað að loka starfsstöð sinni á Ísafirði. Sú ákvörðun þýðir að fimm störf tapast. Halldór sagði þá að honum þætti ákvörðun stjórnenda Já símaskrár illa ígrunduð en að hann teldi líklegra að hægt væri að fá ákvörðuninni breytt með því að kaupa fyrirtækið heldur en með því að biðla til núverandi stjórnenda að hætta við að loka starfsstöðinni.