Ruud Gullit, fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea og Newcastle, telur að Thierry Henry muni líklega yfirgefa Arsenal fljótlega, úr því að hann hefur neitað að framlengja samning sinn við enska félagið. Gullit telur að Barcelona væri kjörið lið fyrir Frakkann.
"Henry er sérstakur leikmaður. Hann kom til baka úr erfiðum meiðslum á dögunum og byrjaði strax að raða inn mörkum á ný. Allir myndu vilja að hann yrði áfram í ensku úrvalsdeildinni, en ég á ekki von á því að hann verði þar áfram. Allir hafa gott af því að prófa að leika mismunandi löndum, ég gerði það sjálfur og hefði alls ekki viljað missa af þeirri reynslu," sagð Gullit og bætti við að hann hefði lítið fyrir sér annað en tilfinninguna þegar hann var beðinn að færa rök fyrir máli sínu.
"Ég hef það bara á tilfinningunni að Henry fari frá Englandi og í fljótu bragði sýnst mér að Barcelona væri fullkomið lið fyrir hann," sagði þessi fyrrum landsliðsmaður Hollendinga.