Robbie Williams hefur verið einn vinsælasti tónlistarmaður Breta undanfarin ár og ef mið er tekið af plötusölu síðustu ára sennilega vinsælasti erlendi popparinn á Íslandi í dag. Hans sjöunda hljóðversplata, Rudebox, kemur út á mánudaginn. Trausti Júlíusson hlustaði á gripinn.
Það verður seint sagt um Robbie Williams að hann sitji auðum höndum.
Hann er búinn að vera á sínu stærsta tónleikaferðalagi til þessa síðan í apríl og hans sjöunda stúdíóplata Rudebox kemur í verslanir á mánudaginn, réttu ári eftir þá síðustu Intensive Care sem hefur þegar selst í tæpum sjö milljónum eintaka. Robbie er ótrúlega vinsæll í Bretlandi. Hann hefur ekkert komist mjög langt á Bandaríkjamarkaði, en víða annarsstaðar í heiminum á hann miklum vinsældum að fagna. Hér á Íslandi er hann sennilega vinsælasti erlendi popparinn í dag.
Það segir sitt að þegar stórtónleikar Rásar 2 á Menningarnótt féllu niðu vegna framkvæmda á hafnarsvæðinu var brugðið á það ráð að endurvarpa tónleikum með Robbie.
Magnaður á sviði
Rudebox er unnin með nokkrum mismunandi upptökustjórum, þ.á.m. Pet Shop Boys (sem Robbie hefur alltaf dýrkað), Mark Ronson (Lily Allen, Nikka Costa), William Orbit (Blur, Madonna), house-stjörnunni Joey Negro og Soul Mekanik, en þeir unnu m.a. lagið Rock DJ með Robbie. Tónlistin er sambland af popplögum og grúvi. Platan hefur bæði að geyma frumsamin lög og tökulög, en Robbie valdi nokkur af uppáhaldslögunum sínum á plötuna, m.a. Human League lagið Louise, Lovelight eftir Lewis Taylor, Stephen Tintin Duffy lagið Kiss Me og King of the Bongo eftir franska tónlistarmanninn Manu Chao.
Elektró og fönk áhrif
Aðdáendur Robbie Williams voru mis hrifnir af fyrstu smáskífunni af nýju plötunni sem heitir Rudebox eins og platan sjálf. Lögin á nýju plötunni eru samt ekki öll þannig. Þarna eru líka poppsmellir eins og smáskífulag númer tvö Lovelight sem Mark Ronson stjórnaði upptökum á og platan er nokkuð fjölbreytt þó að elektró og fönk áhrifin séu áberandi. Robbie hafur þetta að segja um plötun í nýlegu viðtali: Ég gat ekki gert aðra plötu eins og þær sem ég hafði gert áður og þessi plata hefur opnað þúsund dyr fyrir mér. Það sem ég er spenntastur fyrir núna er að gera meiri tónlist, Mér finnst öll lögin á nýju plötunni frábær... Ég hlakka til þess að koma þessari plötu út, en ég er ennþá spenntari að fara að búa til næstu.
Rudebox er fáanleg í sérstakri viðhafnarútgáfu en með henni fylgir DVD-diskur með heimildarmynd, tónleikaefni o.fl.