Sjálfstæðisflokkurinn næði meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs ef kosið yrði nú, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar fyrir NFS. Sjálfstæðismenn fengju 46,8 prósent atkvæða og það dygði þeim til að fá sex bæjarfulltrúa af ellefu í Kópavogi.
Einn listi hefur ekki farið með völdin í Kópavogi síðan vinstrimenn undir forystu Finnboga Rúts Valdimarssonar voru við völd frá 1955 til 1962.
Samfylkingin fengi 34,7% atkvæða samkvæmt könnuninni og fjóra bæjarfulltrúa. Framsóknarflokkurinn fengi 11,7 prósent og tapar nær 60 prósentum af fylgi sínu og tveimur bæjarfulltrúum frá síðustu kosningum.
Vinstri-grænir mælast með 6,8 prósenta fylgi og ná samkvæmt því ekki inn í bæjarstjórn.