Framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar tilkynnti í morgun að Kínverjinn Margaret Chan yrði næsti forstjóri stofnunarinnar. Hún var valin úr fimm manna hópi sem framkvæmdastjórnin ræddi við í gær en í honum voru auk Chan fulltrúar Mexíkós, Japans, Kúveits og Spánar.
Framkvæmdastjórnin kom saman á mánudaginn til að ræða málið og þá voru enn fleiri tilnefndir til starfans, þar á meðal Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Hann féll hins vegar úr leik í fyrstu umferð.
Fulltrúafundur aðildarríkja stofnunarinnar á enn eftir að samþykkja ráðningu Margaret Chan í starf forstjóra en það verður gert á fundi á morgun. Chan tekur við af Suður-Kóreumanninum dr. Lee-Jong-wook sem varð bráðkvaddur í maí síðastliðinn.