Erlent

Fyrr­verandi for­seti Perú í fimm­tán ára fangelsi fyrir peninga­þvætti

Kjartan Kjartansson skrifar
Ollanta Humala talar í símann í dómsal í Lima eftir að hann var dæmdur í fimmtán ára fangelsi fyrir peningaþvætti í gær.
Ollanta Humala talar í símann í dómsal í Lima eftir að hann var dæmdur í fimmtán ára fangelsi fyrir peningaþvætti í gær. AP/Martín Mejía

Ollanta Humala, fyrrverandi forseti Perú, og Nadine Heredia, eiginkona hans, voru bæði dæmd í fimmtán ára fangelsi fyrir peningaþvætti í gær. Humala er annar fyrrverandi forseti Perú sem hlýtur þungan fangelsisdóm á aðeins nokkrum mánuðum.

Peningaþvættismál Humala tengist einu umfangsmesta spillingarmáli í sögu Rómönsku Ameríku. Humala þáði ólöglegar greiðslur upp á milljónir dollara frá brasilíska verktakafyrirtækinu Odebrecht sem fjármögnuðu að hluta kosningabaráttu hans árið 2006 og 2011. Fyrirtækið greiddi stjórnmálamönnum vítt og breitt um heimshlutann mútur til þess að fá verktakasamninga.

Humala, sem var forseti Perú frá 2011 til 2016, og Heredia neituðu bæði sök. Heredia fékk hæli í Brasilíu og verður leyft að fara þangað með syni sínum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Saksóknarar höfðu engu að síður farið fram á þyngri fangelsisdóm yfir henni en Humala.

Alejando Toledo, annar fyrrverandi forseti Perú, var dæmdur í tuttugu og hálfs árs fangelsi fyrir mútuþægni í október. Þær mútur voru einnig frá Odebrecht. Þá er Pedro Pablo Kuczynski, enn einn fyrrverandi forsetinn, enn til rannsóknar í tengslum við spillingarmálið.

Þar með eru vandræði fyrrverandi forseta landsins ekki enn upptalin. Pedro Castillo hefur setið í fangelsi, sakaður um uppreisn eftir að hann reyndi að leysa upp perúska þingið árið 2022. Hann er einnig sakaður um spillingu, þó ekki í Odebrecht-málinu. Arftaki Castillo, Dina Boluarte, núverandi forseti, var kærð fyrir mútuþægni í fyrra.


Tengdar fréttir

Forseti Perú kærður fyrir mútuþægni

Ríkissaksóknari í Perú lagði fram kæru til þingsins á hendur Dinu Boluarte, forseta landsins, fyrir mútuþægni í gær. Ásakanirnar tengjast lúxusúrum og skartgripum sem Boluarte ber.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×