Stjórn þýsku kauphallarinnar í Frankfurt, Deutsche Börse, hefur fallið frá frekari yfirtökutilraunum í samevrópska hlutabréfamarkaðinn Euronext. Kauphöllin í New York í Bandaríkjunum bauð 10 milljarða bandaríkjadali eða rúmlega 692 milljarða íslenskra króna í Euronext í maí og er stefnt að sameiningu kauphallanna. Þýska kauphöll hefur þrátt fyrir það horft til þess að hafa betur í kapphlaupinu um markaðinn.
Þýska kauphöllin hefur nokkrum sinnum á árinu mælt með samruna við Euronext og lagði meðal annars fram yfirtökutilboð í markaðinn í júní síðastliðnum. Stjórn Euronext, sem rekur kauphallir í Amsterdam, Brussel, París og Lissabon, felldi það hins vegar.
Breska ríkisútvarpið (BBC) hefur eftir tilkynningu frá stjórn þýsku kauphallarinnar í dag, að stjórn Euronext hafi ekki hug á samruna við kauphöllina og því verði öllum yfirtöku- og sameiningatilraunum markaðanna hætt.