Viðskipti erlent

Gefur eftir í tollastríði við Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður ætla að lækka verulega tolla sem hann hefur beitt Kína. Í einhverjum tilfellum eiga tollarnir á innflutning frá Kína að lækka um meira en helming en Trump hefur ekki tekið lokaákvörðun.

Með þessu vonast Trump-liðar til að draga úr spennunni í samskiptum við Kína, samkvæmt frétt Wall Street Journal, en markaðir hafa tekið vel í ummæli Trumps á þessum nótum síðustu daga og þá yfirlýsingu að hann ætli sér ekki að reyna að reka seðlabankastjóra Bandaríkjanna.

Í gær sagði Trump til að mynda að hann væri tilbúinn til að lækka tollana á Kína, sem í mörgum tilfellum eru 145 prósent, en þeir yrðu ekki felldir alfarið niður.

Ráðamenn í Kína sögðust í dag vera tilbúnir til viðræðan við Bandaríkjamenn en ítrekuðu að þeir myndu ekki sitja undir áframhaldandi hótunum frá Hvíta húsinu. Kínverskir heimildarmenn WSJ segja ummæli Trumps í gær hafa verið talin til marks um að hann væri að lúffa.

Eins og áður segir hafa markaðir tekið vel í vendingar síðustu daga. Vísitölur hafa hækkað um allan heim, þó þær séu flestar vel undir þeim hápunkti sem þær náðu fyrr á árinu. Óreiða síðustu vikna hefur haft verulega slæm áhrif á virði hlutabréfa um allan heim.

CNBC hefur eftir Scott Bessent, fjármálaráðherra Trumps, að Bandaríkin og Kína hafi tækifæri á því að ná góðum samningi. Það muni þó taka tíma.

Þegar hann var spurður um frétt WSJ sagðist Bessent ekki vita til þess að umræða sem þessi hefði átt sér stað innan veggja Hvíta hússins. Þá dró hann í efa að það væri rétt.

Hann sagðist þó fastlega búast við menn myndu draga í land, þegar kæmi að viðskiptaátökum Bandaríkjanna og Kína.


Tengdar fréttir

ESB sektar Apple og Meta um rúma hundrað milljarða

Evrópusambandið hefur sektað bandarísku fyrirtækin Apple og Meta um samanlagt sjö hundruð milljónir evra. Sektirnar eru til komnar vegna brota fyrirtækjanna á lögum sambandsins og munu þær að öllum líkindum auka spennuna milli ESB og ríkisstjórnar Donalds Trump.

Ætlar að einbeita sér að Tesla eftir slæmt uppgjör

Elon Musk, einn auðugasti maður heims og náinn bandamaður Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, ætlar að draga verulega úr störfum sínum fyrir Trump í næsta mánuði. Í staðinn ætlar hann að einbeita sér að rekstri rafmagnsbílafyrirtækisins Tesla, sem birti í dag mjög neikvætt ársfjórðungsuppgjör.

Spá minni hag­vexti um nær allan heim vegna tolla Bandaríkja­stjórnar

Tollar sem Bandaríkjastjórn hefur lagt á nær öll viðskiptaríki sín munu leiða til umtalsvert minni hagvaxtar um nær allan heim en gert var ráð fyrir, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Innflutningstollar í Bandaríkjunum hafa ekki verið hærri í heila öld.

Ummæli Trumps um „meiriháttar lúser“ leggjast illa í markaðinn

Markaðir í Bandaríkjunum virðast hafa brugðist nokkuð harkalega við ummælum Donalds Trump Bandaríkjaforseta um seðlabankastjóra landsins. Hagfræðingur segir merki um að yfirlýst markmið Trump með tollastefnu sinni gætu snúist upp í andhverfu sína, í það minnsta til skemmri tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×