Hljómsveitin Leaves spilar á nýja tónleikastaðnum Organ við Hafnarstræti í kvöld.
„Þetta verða aðallega ný lög í bland við eitthvað klassískt. Mikið húllumhæ,“ segir Andri Ásgrímsson hljómborðsleikari Leaves.
Meðlimir Leaves eru langt komnir með upptökur á þriðju hljóðversplötu sinni og stefna á að gefa hana út á þessu ári. „Við erum eiginlega búnir að taka upp allt nema smá söng og ditterí hér og þar.“
Í lok mánaðarins heldur Leaves svo til Litháens til að spila á tónlistarhátíð þar ásamt Bloodhound Gang, Morcheeba, Ratatat og fleirum. Tónleikarnir fara fram í gömlum kastala.
Með Leaves á tónleikunum í kvöld spilar hljómsveitin Shadow Parade. Tónleikarnir hefjast kl. 21 og það kostar 500 kr inn.