Gamalt og gott húsráð meðal lækna í áratugi hefur verið að gefa sjúklingum með krónískan hósta morfín. Þar til nú hefur þessi grunur læknanna ekki verið staðfestur með rannsóknum.
En nú hefur rannsókn í háskólanum í Hull í Bretlandi leitt í ljós að hugboð læknanna er rétt.
Tuttugu og sjö sjúklingar með óstöðvandi hósta sýndu skjót viðbrögð við morfín-meðferð eftir að hafa fengið daglega 5 mg af morfíni tvisvar á dag. Á fimmta degi náði árangurinn hámarki og hélst út fjögurra vikna rannsóknartímann.
Allir sjúklingarnir höfðu þjáðst af hósta í að minnsta kosti þrjá mánuði áður en þeir tóku þátt í rannsókninni. Þeir vissu ekki hvort þeir voru að fá morfín, eða lyfleysu.
Rannsóknin er birt í the American Journal of Respiratory and Critical Care Medicine.
Fréttavefur BBC greindi frá þessu.