Samkomulag mun hafa tekist meðal vesturveldanna, Kína og Rússlands, um frekari viðskiptaþvinganir á hendur Írönum vegna kjarnorkuáætlunar þeirra.
Samkvæmt heimildum Breska ríkisútvarpsins, BBC, hefur verið samið um grundvallaratriði í nýjum ályktunum og uppkast verður lagt fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á fundi í New York í kvöld.
Lagt verður til bann á vopnaútflutningi frá Íran og að eignir helstu embættismanna verði frystar.
Íranar hafa haldið því statt og stöðugt fram að kjarnorkuáætlanir þeirra séu friðsamlegar en vesturveldin gruna þá um að reyna að þróa kjarnavopn.
Forseti Írans, Ahmadínadjad, segir ályktanir ekki stöðva áform Írana.