Stórtenórinn Luciano Pavarotti hefur fengið leyfi lækna til að yfirgefa sjúkrahúsið á Norður-Ítalíu sem hann var lagður inná með háan hita og lungnabólgu á dögunum.
Samkvæmt talsmanni Pavarotti er söngvarinn sæll og glaður og hlakkar til að halda aftur til starfa sinna sem söngkennari.
Líklega yfirgefur hann sjúkrahúsið á allra næstu dögum.
Pavarotti stefnir á að halda í hljóðver í næsta mánuði og taka upp hljómskífu.
Pavarotti greindist með krabbamein í briskirtli í júlí á síðasta ári og þurfti í kjölfarið að fresta fyrirhugaðri kveðjutónleikaferð sinni. Hann hefur ekki sést opinberlega síðan.