Ræðismaður Íslands í Dóminíska lýðveldinu segist hafa fengið þær upplýsingar að íslensk kona sem fannst látin í landinu á sunnudagskvöld hafi verið beitt ofbeldi.
Konan vann á gistiheimili í Cabareta á norðurströnd landsins og fannst látin á herbergi sínu.
Ræðismaðurinn José Miladeh Jaar segir að stúlkan hafi verið eins konar framkvæmdastjóri á gistiheimilinu þar sem hún vann og bjó. Hún var 29 ára gömul.
Jaar segir að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu bendi verksummerki á herbergi hennar til þess að ofbeldi hafi verið beitt og beinist rannsókn nú að því að finna út hvort konan hafi verið myrt.