Stjórnlagadómstóll í Thailandi hefur úrskurðað að Samak Sundaravej forsætisráðherra verði að segja af sér vegna sjónvarpsþáttar sem hann stýrði.
Sundaravej er kokkur góður og stýrði vinsælum matreiðsluþætti í sjónvarpinu. Af því starfi lét hann ekki fyrr en tveim mánuðum eftir að hann varð forsætisráðherra.
Forsætisráðherrann er mikill áhugamaður um mat og matarverð. Í opinberri heimsókn til Malasíu var hans eina ósk að farið yrði með hann á útimarkað.
Þar skoðaði hann matvæli og reiknaði út hlutfallslegt verð miðað við tekjur manna í löndunum tveim.
Þegar hann svo hélt þakkarboð fyrir gestgjafa sína fyrir heimferðina gerði forsætisráðherrann sér svo lítið fyrir og eldaði mat fyrir 40 manns á nokkrum mínútum.
Flokkur Sundaravejs hefur lýst yfir að hann muni tilnefna hann aftur í embætti forsætisráðherra.