Stórpródúsentinn Timbaland segir þá Jay-Z stefna á samstarf við næstu plötu rapparans. Hafa þeir kappar áður starfað saman, til dæmis við „Big Pimpin" sem sló í gegn á heimsvísu árið 2000.
Timbaland tjáði áhuga sinn á samstarfi við MTV, þótt ekkert hafi verið staðfest í þeim efnum. Það stendur þó ekki í vegi fyrir því að Timbaland tali um málið eins og um staðreynd væri að ræða.
„Hann vill að ég sjái um þetta allt saman núna. Ég er að gera handa honum algjöran klassíker. Ég segi það satt, þetta verður algjört skrímsli. Við viljum ná heiminum. Þetta verða tíu Big Pimpin." Jay-Z er á tónleikaferðalagi og hefur ekki tjáð sig um málið.