Lokaleikur níundu umferðar Pepsi-deildar kvenna í fótbolta lauk á Akureyri í kvöld þegar heimastúlkur í Þór/KA unnu góðan 2-1 sigur gegn KR en bein textalýsing frá leiknum var á heimasíðu Þórs.
Silvía Rán Sigurðardóttir og Mateja Zver skoruðu fyrir Þór/KA en Hrefna Huld Jóhannesdóttir minnkaði muninn fyrir KR á lokakafla leiksins.
Þór/KA skaust upp í fjórða sæti deildarinnar með sigrinum og er komið með sextán stig en KR er áfram í sjötta sætinu með tíu stig.
Norðanstúlkur enduðu einmitt í fjórða sæti í efstu deild síðasta sumar og það er besti árangur í sögu félagsins en búist er við því að liðið geti blandað sér í toppbaráttuna í sumar.