Önnur sólóplata sellóleikarans Hildar Guðnadóttur, Without Sinking, og hennar fyrsta hjá breska útgáfufyrirtækinu Touch, er í tólfta sæti yfir plötur ársins hingað til á bresku tónlistarsíðunni Factmagazine. Hildur er þekkt fyrir spilamennsku sína með Múm og Stórsveit Nix Noltes en sólóferill hennar virðist nú vera kominn á flug.
„Tilfinningarík og sérlega rómantísk sellóplata frá þessum virta íslenska listamanni þar sem þéttur bassaleikur og rafhljóð sem rétt heyrist í koma einnig við sögu frá Jóhanni Jóhannssyni og Skúla Sverrissyni,“ segir í umsögninni.
„Ekki síðan World of Echo kom út með Arthur Russell hefur eins „hefðbundið“ strengjahljóðfæri hljómað eins áhrifaríkt.“
Without Sinking var að mestu tekin upp í Berlín síðasta sumar. Auk Skúla og Jóhanns spilaði faðir Hildar, Guðni Franzson, einnig á klarinett í tveimur lögum á plötunni.