Stjörnufræðingar hafa með hjálp Hubble geimsjónauka NASA og ESA fundið fjórða tunglið á braut um dvergreikistjörnuna Plútó. Tungið er um þrettán til þrjátíu og fjórir kílómetrar í þvermál og hefur tímabundið verið gefið nafnið P4.
Á stjörnufræðivefnum kemur fram að tunglið hafi fundist við leit að hringum um dvergreikistjörnuna í undirbúningi fyrir heimsókn New Horizons geimfarsins til Plútós árið 2015. Það er staðsett á milli brauta tunglanna Nix og Hýdru sem Hubble geimsjónaukinn fann árið 2005. Stærsta tunglið, Karon, fannst árið 1978 með sjónauka á jörðu niðri.
„Nýja tunglið er hið smæsta sem fundist hefur um Plútó. Útreikningar benda til að það sé milli 13 og 34 km í þvermál. Til samanburðar er Karon 1.034 km í þvermál en hin tunglin, Nix og Hýdra eru á bilinu 32 til 113 km.
Talið er að tunglakerfið hafi orðið til við árekstur milli Plútós og annars hnattar snemma í sögu sólkerfisins. Við áreksturinn þeyttist efni út í geiminn sem síðan þjappaðist saman og myndaði tungl. Menn hafa talið líklegt að finna megi leifar árekstursins á formi hringa umhverfis Plútó en engir hafa fundist hingað til,“ segir ennfremur á vefnum.
Hægt er að lesa nánar um tunglið á stjörnufræðivefnum hér.