Erlent

Frjáls­lyndir með for­skot á loka­spretti kosninga­baráttunni

Atli Ísleifsson skrifar
Mark Carney, forsætisráðherra og leiðtogi Frjálslynda flokksins, á kosningafundi í Laval í Quebec í gær.
Mark Carney, forsætisráðherra og leiðtogi Frjálslynda flokksins, á kosningafundi í Laval í Quebec í gær. AP

Rúmlega sjö milljónir kanadískra kjósenda hafa nú kosið utan kjörfundar en þingkosningar fara fram í landinu næstkomandi mánudag. Landskjörstjórn segir að aldrei hafi svo margir kosið utan kjörfundar í þingkosningum.

BBC segir frá því að utankjörfundarstaðir hafi verið opnir frá föstudegi til mánudags hefur páskana og bárust fréttir af löngum röðum víðs vegar um land. Tvær milljónir manna mættu og kusu á föstudeginum langa, en í heildina hefur nú um fjórðungur atkvæðisbærra manna kosið.

Kosningabaráttan hefur staðið síðustu vikurnar og hefur hún að stórum hluta fjallað um tollastríð Kanada og Bandaríkjanna.

Forsætisráðherrann Mark Carney, leiðtogi Frjálslynda flokksins, ákvað að boða til kosninga skömmu eftir að hann tók við formennsku í Frjálslynda flokknum af Justin Trudeau fyrr á árinu. Trudeau tilkynnti um afsögn sína í janúar en hann hafði þá gegnt embætti forsætisráðherra í rúm níu ár.

Skoðanakannanir benda til þess að Frjálslyndi flokkurinn hafi fimm prósentustiga forskot á Íhaldsflokkinn, stærsta stjórnarandstöðuflokkinn.

Carney mætti á kosningafundi á Eyju Játvarðs prins og í Quebec í gær, en Pierre Poilievre, leiðtogi Íhaldsmanna, stóð fyrir kosningafundi í Vaughan, úthverfi Toronto. Á fundi sínum sagði Carney að Poilievre væri ekki með neina áætlun hvernig best væri að fást við Donald Trump Bandaríkjaforseta og tollastríð hans, en Trump hefur komið á 25 prósenta toll á allar vörur frá Kanada ef frá eru talar þær sem eru undanþegnar í skjóli fríverslunarsamningi NAFTA.

Frjálslyndi flokkurinn hafði undir lok stjórnar Trudeau ítrekað mælst með fylgi undir tuttugu prósentum. Þróunin hefur þó snúist við síðustu vikurnar eftir að Carney, fyrrverandi seðlabankastjóri landsins, tók við og mælist flokkurinn nú stærstur.


Tengdar fréttir

Segir gömlu sambandi Kanada við Bandaríkin lokið

Kanadamenn þurfa að gera umfangsmiklar breytingar á hagkerfi þeirra og í raun umturna því. Þetta sagði Mark Carney, forsætisráðherra, Kanada í ræðu sem hann hélt í kvöld en hann lýsti því meðal annars yfir að hið gamla samband Kanadamanna við nágranna sína í suðri, Bandaríkjamenn, væri búið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×