Trausti Laufdal Aðalsteinsson bloggari var í dag sýknaður af meiðyrðastefnu vegna ummæla sem hann viðhafði á bloggsíðu á DV. Það var fjölskylda í Aratúni í Garðabæ sem stefndi Trausta en hann mun meðal annars hafa kallað fólkið „bilað lið" og „mansonfjölskyldu sem ætti að vista í vel afgirtu búri í húsdýragarðinum".
Fjölskyldan sem um ræðir hefur átt í miklum útistöðum við nágranna sína. Um þær deilur hefur verið fjallað í fjölmiðlum. Fjölskyldan krafðist samtals 2 milljóna króna af bloggaranum, en bæði var hann og útgáfufélag DV sýknað.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að líta verði til þess að stefnendur séu ekki nafngreindir í bloggfærslunni og ekki unnt að átta sig á því við hverja er átt, nema að kynna sér undangengna fjölmiðlaumfjöllun. Þá beri að líta til þess að ummæli Trausta hafi verið ályktanir sem hann taldi sig geta byggt á umfjöllun í fjölmiðlum, þar sem hegðun Aratúnsfjölskyldunnar hafi vissulega verið sett fram sem ofbeldisfull og ósæmileg. Ekki sé hægt að fallast á það með Aratúnsfjölskyldunni að lögð verði í þau bókstafleg merking.