Mjólkursamsalan hefur innkallað fimm vörutegundir sökum þess að fyrirtækið fékk afgreitt iðnaðarsalt frá Ölgerðinni þrátt fyrir að hafa pantað matvælasalt. Um er að ræða eina af sex vinnslustöðvum MS sem fékk saltið afgreitt og er það innan við 1 prósent af saltnotkun fyrirtækisins.
Vörurnar sem um ræðir eru Klípa, Létt og laggott, Grjónagrautur, Hrísmjólk og smyrjanlegur rjómaostur. „MS hefur þegar skipt um salttegund í framleiðslu framangreindra vörutegunda og innkallar af markaði það sem framleitt var með þessum hætti.
Salt í allar aðrar vörur MS er staðlað matarsalt," segir í tilkynningu um leið og mistökin eru hörmuð en minnt á að Matvælastofnun telji að neytendum stafi ekki hætta af saltinu.
