Erlent

Breyta stjórnarskránni til að banna gleðigönguna

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Skipuleggjendur gleðigöngunnar í Búdapest stefna ótrauðir að því að halda gönguna í ár, þrátt fyrir að eiga sektir yfir höfði sér.
Skipuleggjendur gleðigöngunnar í Búdapest stefna ótrauðir að því að halda gönguna í ár, þrátt fyrir að eiga sektir yfir höfði sér. AP/Anna Szilagyi

Ungverska þingið samþykkti í dag viðauka við stjórnarskrá landsins sem vegur verulega að réttindum hinsegin fólks. Viðaukinn stjórnarskrárver ný lög sem banna allar gleðigöngur í landinu.

Ný lög sem samþykkt voru í síðasta mánuði lögðu blátt bann við nær allar samkomur hinsegin fólks í Ungverjalandi og heimiluðu löggæslu að beita andlitsgreiningarbúnaði til að bera kennsl á þá sem brjóta gegn þeim. Lögin leggja bann við það að einstaklingar efni til eða mæti á viðburði sem brjóta gegn umdeildum lögum um barnavernd. Þau kveða á um að ekki megi „kynna“ kynhneigð fyrir börnum yngri en átján ára.

Viðauki þessi við stjórnarskrá landsins var lögð fram af íhaldssama Fidesz-flokki forsætisráðherra landsins, Viktors Orbán, samkvæmt umfjöllun Guardian. Auk þess að stjórnarskrárverja heimild löggæslu að fylgjast með ferðum og samkomum hinsegin fólks með andlitsgreiningarbúnaði kveður viðbótin á um að til séu tvö kyn.

Jafnframt heimilar stjórnarskrárviðaukinn ríkisstjórninni að svipta einstaklinga ríkisborgararétti tímabundið sem þykja ógna fullveldi eða öryggi landsins.

Skriðþungaflokkurinn, Momentum Mozgalom, líkir þessum aðförum ríkisstjórnarinnar að réttindum hinsegin fólks við svipaðar aðgerðir Rússlandsstjórnar Vladímírs Pútín. Báðir leiðtogar vilja gjarnan mála sig upp sem baráttumenn fyrir hefðbundnum gildum og kjarnafjölskyldunni. Þeir líta á tilvist hinsegin fólks sem ógn við hefðbundið fjölskyldulíf og kristin gildi.

Skipuleggjendur gleðigöngunnar í Búdapest segjast staðráðnir í að halda gleðigönguna aftur í sumar þrátt fyrir að sérstök viðbót í stjórnarskrá landsins banni það. Það stendur til að halda gleðigönguna 28. júní næstkomandi.

„Þetta er ekki barnavernd, þetta er fasismi,“ sögðu þeir í yfirlýsingu í kjölfar samþykkis frumvarpsins um bann við gleðigöngum og öðrum hinseginmiðuðum viðburðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×