Bent Nyegaard, handboltasérfræðingur hjá dönsku TV2 sjónvarpsstöðinni, sagði ummæli Björns Braga Arnarssonar hafa komið Dönum verulega á óvart.
Björn Bragi líkti landsliðinu við þýska nasista í EM-stofu Rúv í hálfleik viðureignar Íslands og Austurríkis um helgina. Hann baðst síðar afsökunar á ummælunum sem hafa dregið dilk á eftir sér og ratað í erlenda fjölmiðla.
„Þau hafa fengið nokkuð á okkur, þessi ummæli sem við höfum lesið um í dönskum blöðum,“ sagði Nyegaard í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Við erum mjög undrandi á að fréttaskýrandi skuli koma með svona samlíkingu. Þetta virkaði frumstætt og heimskulegt.“
Er þetta hneyksli?
„Já, þetta er hneyksli, því handbolti hefur ekkert með það sem gerðist 1938 að gera.“
„Ég veit ekki hvað hefur gengið á í höfðinu á manninum en við höfum talað um að þetta hljóti að hafa verið mistök, því hann getur ekki meinað þetta.“
„Þetta er handbolti og hann er allt annar heimur en það sem gerðist 1938. Við viljum aldrei framar sjá svona samlíkingu.“
Handbolti