„Vorboðinn var í Kópavogi síðastliðinn laugardag, hvort sem hann hafi hokrað hér í vetur út á Seltjarnarnesi eða hafi komið fljúgandi sunnan yfir sæinn,“ segir Ólafur Karl Níelsen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun.
„Hann var í sumarklæðum, svörtum sokkabuxum og gullinn að ofan.“
Vísir hafði samband við Ólaf, sem sá lóuna um helgina.
„Við teljum fugla í Kópavogi og höfum gert síðan í haust. Síðustu lóurnar sáust í byrjun nóvember, þannig að þetta er nýr fugl inn á svæðinu. Það voru reyndar nokkrar lóur út á Seltjarnarnesi í allan vetur. Þær voru þó ekki komnar í sumarbúning síðast þegar ég vissi. Þessi var í sumarbúning.“
Ólafur segir lóuna yfirleitt koma til landins um þetta leyti á hverju ári.
„Það er alltaf gaman þegar lóan kemur. Þá fyllist maður bjartsýni á að lífið haldi áfram og það sé eitthvað framhaldslíf til,“ segir Ólafur glaður í bragði.