Finnur Ingólfsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, býr í Vesturkoti á Skeiðum þar sem fjölskyldan er með hrossaræktarbú. Dóttir Finns, Hulda, á stóðhestinn Spuna en hún fékk hann í gjöf frá foreldrum sínum þegar hann var tveggja vetra en hesturinn er átta vetra í dag.
Spuni er hæst dæmdi stóðhestur heims en hann fékk m.a. 10 í einkunn fyrir skeið, 10 fyrir vilja og 9 fyrir tölt og brokk í dómi á sínum tíma. Þórarinn Ragnarsson hefur séð um þjálfun Spuna og reið honum til sigurs í A-flokki á landsmótinu á Hellu um síðustu helgi.

En hvernig lýsir Hulda Spuna ?
„Hann er bara einstakur gæðingur, hann er engum líkur og þú getur treyst honum fyrir öllu. Hann er eins og klettur og hann er mjög öruggur með sjálfan sig eins og í allri umgengni, líka þegar þú ert komin á bak. Það er ekkert sem truflar hann, þú getur ekki hitt neitt sem hann verður hræddur við. Hann er bara einstakur, þetta er bara algjör gæðingur“, segir Hulda.
Spuna var sleppt í gær út í girðingu til mera en hann mun sinna 60–70 merum á næstu vikum en gríðarleg aðsókn er í að fá folald undan honum. Folatollurinn kostar 275 þúsund krónur.
En er Spuni falur fyrir rétt verð, t.d. fyrir 100 milljónir króna? „Nei, því miður,“ segir Hulda og hlær.
En 200 milljónir króna?
„Ég myndi hugsa það kannski en ég efast um að það sé einhver sem á svo mikla peninga. Ef svo er þá bara bíð ég spennt eftir honum. Allavega eins og staðan er núna þá er engin upphæð sem hann er falur á,“ segir eigandi Spuna.
