Hann hefur eytt tímanum með fjölskyldunni og verið duglegur að æfa, en á dögunum var hann í Danmörku að kenna á MMA-námskeiði fyrir UFC-bardagasambandið.
„Ég tók mér kannski smá frí, en ég hef mætt í æfingasalinn nánast daglega. Þetta hefur verið rólegur tími þar sem það er ekkert á dagskránni. Ég hef getað eytt tímanum með fjölskyldunni, æft á mínum hraða og unnið í nýjum hlutum,“ segir Gunnar í viðtali við tímaritið Fighters Only.

„Ég lærði mikið af síðasta bardaga. Þetta var langur og erfiður bardagi og það er ýmislegt sem ég get tekið með mér úr honum. Það eru líka hlutir sem ég verð að skilja eftir,“ segir Gunnar, en hvað hefði hann átt að gera betur gegn Story?
„Ég festist í ákveðnum hreyfingum - ég hefði getað hreyft mig mun frjálslegar. Það er eitthvað sem ég hef vanalega gert mjög vel því ég er með gott jafnvægi. Mér fannst ég nokkuð stífur í þessum bardaga.“
Enginn bardagi er á dagskránni hjá Gunnari á næstunni, en hann mun hjálpa vini sínum og verðandi ofurstjörnunni Conor McGregor að æfa fyrir risabardaga hans gegn Dennis Siver í janúar.
„Ég held að Conor komi kannski til Íslands til að æfa. Ef ekki þá skrepp ég yfir tl Dyflinnar og hjálpa strákunum. Það er engin spurning. Þetta er mitt lið og þar eiga menn stóra bardaga í janúar. Ég mun klárlega hjálpa þeim,“ segir Gunnar.
Aðspurður hvenær hann sjálfur ætli að snúa aftur stefnir Gunnar á endurkomu í janúar og hann sé þá tilbúinn til að berjast við hvern sem er.