Lífið og listin Friðrika Benónýsdóttir skrifar 3. febrúar 2014 06:00 Frétt helgarinnar var tvímælalaust opið bréf Dylan Farrow í The New York Times þar sem hún lýsir kynferðislegu ofbeldi sem hún segist hafa orðið fyrir sjö ára gömul af hendi fósturföður síns, Woody Allen. Málið var reyndar rannsakað á sínum tíma og engin kæra lögð fram á hendur Allen, en það sannar að sjálfsögðu ekki að sagan sé uppspuni. Bréfið sannar svo sem ekki heldur að ásakanirnar séu sannar en það er erfitt að lesa það án þess að hallast á sveif með Farrow. Hví skyldi hún koma fram með sögu sína 21 ári síðar ef ásakanir um kynferðisofbeldi hefðu eingöngu verið tæki móður hennar, Miu Farrow, til að ná sér niðri á svikulum sambýlismanni og svipta hann umgengnisrétti við börnin, eins og haldið hefur verið fram? Eins og við mátti búast loga netmiðlar og samfélagsmiðlar í umræðu um málið og sitt sýnist hverjum eins og ævinlega í umdeildum málum. Ýmist vill fólk verja Allen vegna stöðu hans sem listamanns og bendir á að engin kæra hafa verið lögð fram eftir rannsókn málsins, eða það úthrópar hann og hvetur alla til að sniðganga verk hans á þeim forsendum að hann sé glæpamaður. Þessa umræðu þekkjum við Íslendingar vel eftir tvö áberandi mál þar sem þjóðþekktir menn voru ásakaðir um kynferðisofbeldi og ýmist úthrópaðir sem glæpamenn eða hafnir til skýjanna og ásakendurnir fordæmdir. Saklaus uns sekt sannast virðist ekki eiga við í slíkum málum, enda barnaníð og nauðganir alvarlegustu glæpir sem hægt er að fremja að morðum einum undanskildum og eðlilegt að fólki hitni í hamsi þegar ásakanir um slíkt koma upp. Það sem gerir umræðuna um slíkar ásakanir á hendur listamönnum sérstaka og kannski hættulegri en slíka umræðu almennt er krafan um að fólk hunsi verk þeirra. Sé saga listamanna í gegnum aldirnar skoðuð kemur nefnilega í ljós að þar er æði misjafn sauður í mörgu fé og margir af dáðustu listamönnum sögunnar hafa haft ýmsilegt miður fallegt á samviskunni í einkalífinu. Engu að síður hafa verk þeirra lifað og öðlast háan sess í augum bæði leikra og lærðra. Verðum við ekki að leggjast í endurskoðun listasögunnar ef krafan er sú að listamenn hafi verið flekklausir í einkalífinu? Fjarlægja bækur þeirra, myndlist, tónlist, kvikmyndir, leiklist og allt sem þeir hafa sent frá sér úr listasöfnum, tónlistarhöllum, leikhúsum, bísölum, sjónvarpi og bókasöfnum og hætta að dást að snilli þeirra? Ef krafan er sú að vondur maður sem skapar góð listaverk eigi ekki að njóta sannmælis sem listamaður hvar ætlum við þá að draga mörkin? Á að flokka glæpina eftir alvarleika og sleppa minni háttar glæpamönnum inn í listasöguna en banna verk stórglæpamanna eða hvernig á framkvæmd slíkra hreinsana að fara fram? Og hver ætlar að kasta fyrsta steininum? Getum við ekki orðið sammála um það að listin sé hafin yfir persónu listamannsins og lifi á eigin forsendum burtséð frá breyskleika hans? Bókabrennur vegna skoðana hafa aldrei þótt góð latína og sú stefna að dæma listaverk eftir breytni eða skoðunum þess sem skapaði þau kann ekki góðri lukku að stýra. Fordæmum manninn ef ástæða er til en leyfum listinni að lifa. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Friðrika Benónýsdóttir Mest lesið Það er ekki eitt, það er allt Diljá Matthíasardóttir Skoðun Hvað segir Morgunblaðið nú um stöðu litlu ríkjanna í ESB? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óáreiðanlegar mælingar og misvísandi fréttir Sigurjón Arnórsson Skoðun Líknarslæving við lífslok er umdeild meðferð Ingrid Kuhlman Skoðun Píkudýrkun Kolbrún Bergþórsdóttir Skoðun Henta vísindin bara þegar þau styðja skoðanir okkar? Haukur Logi Jóhannsson Skoðun Tvær þjóðir í sama landi Einar Helgason Skoðun Unga fólkið okkar og samfélagsmiðlar Fjóla Einarsdóttir Skoðun Hlutverk markmiða er að umbreyta okkur Árni Sigurðsson Skoðun Skilyrt loforð Þorsteinn Sæmundsson Skoðun
Frétt helgarinnar var tvímælalaust opið bréf Dylan Farrow í The New York Times þar sem hún lýsir kynferðislegu ofbeldi sem hún segist hafa orðið fyrir sjö ára gömul af hendi fósturföður síns, Woody Allen. Málið var reyndar rannsakað á sínum tíma og engin kæra lögð fram á hendur Allen, en það sannar að sjálfsögðu ekki að sagan sé uppspuni. Bréfið sannar svo sem ekki heldur að ásakanirnar séu sannar en það er erfitt að lesa það án þess að hallast á sveif með Farrow. Hví skyldi hún koma fram með sögu sína 21 ári síðar ef ásakanir um kynferðisofbeldi hefðu eingöngu verið tæki móður hennar, Miu Farrow, til að ná sér niðri á svikulum sambýlismanni og svipta hann umgengnisrétti við börnin, eins og haldið hefur verið fram? Eins og við mátti búast loga netmiðlar og samfélagsmiðlar í umræðu um málið og sitt sýnist hverjum eins og ævinlega í umdeildum málum. Ýmist vill fólk verja Allen vegna stöðu hans sem listamanns og bendir á að engin kæra hafa verið lögð fram eftir rannsókn málsins, eða það úthrópar hann og hvetur alla til að sniðganga verk hans á þeim forsendum að hann sé glæpamaður. Þessa umræðu þekkjum við Íslendingar vel eftir tvö áberandi mál þar sem þjóðþekktir menn voru ásakaðir um kynferðisofbeldi og ýmist úthrópaðir sem glæpamenn eða hafnir til skýjanna og ásakendurnir fordæmdir. Saklaus uns sekt sannast virðist ekki eiga við í slíkum málum, enda barnaníð og nauðganir alvarlegustu glæpir sem hægt er að fremja að morðum einum undanskildum og eðlilegt að fólki hitni í hamsi þegar ásakanir um slíkt koma upp. Það sem gerir umræðuna um slíkar ásakanir á hendur listamönnum sérstaka og kannski hættulegri en slíka umræðu almennt er krafan um að fólk hunsi verk þeirra. Sé saga listamanna í gegnum aldirnar skoðuð kemur nefnilega í ljós að þar er æði misjafn sauður í mörgu fé og margir af dáðustu listamönnum sögunnar hafa haft ýmsilegt miður fallegt á samviskunni í einkalífinu. Engu að síður hafa verk þeirra lifað og öðlast háan sess í augum bæði leikra og lærðra. Verðum við ekki að leggjast í endurskoðun listasögunnar ef krafan er sú að listamenn hafi verið flekklausir í einkalífinu? Fjarlægja bækur þeirra, myndlist, tónlist, kvikmyndir, leiklist og allt sem þeir hafa sent frá sér úr listasöfnum, tónlistarhöllum, leikhúsum, bísölum, sjónvarpi og bókasöfnum og hætta að dást að snilli þeirra? Ef krafan er sú að vondur maður sem skapar góð listaverk eigi ekki að njóta sannmælis sem listamaður hvar ætlum við þá að draga mörkin? Á að flokka glæpina eftir alvarleika og sleppa minni háttar glæpamönnum inn í listasöguna en banna verk stórglæpamanna eða hvernig á framkvæmd slíkra hreinsana að fara fram? Og hver ætlar að kasta fyrsta steininum? Getum við ekki orðið sammála um það að listin sé hafin yfir persónu listamannsins og lifi á eigin forsendum burtséð frá breyskleika hans? Bókabrennur vegna skoðana hafa aldrei þótt góð latína og sú stefna að dæma listaverk eftir breytni eða skoðunum þess sem skapaði þau kann ekki góðri lukku að stýra. Fordæmum manninn ef ástæða er til en leyfum listinni að lifa.