Ómótstæðilegur eftirréttur úr smiðju Eyþórs Rúnarssonar úr þættinum Eldhúsið hans Eyþórs á Stöð 2. Í síðasta þætti voru egg í aðalhlutverki og því ekki úr vegi að baka marens.
Vanillukrem og marengs með jarðarberjum og bláberjum
Marengs
4 eggjahvítur
250 gr sykur
1 tsk sítrónusafi
1 tsk Maísmjöl (Maizena)
1 tsk vanilludropar
1 askja jarðaber, skorin
1 askja bláber
Hitið ofninn í 150°C. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær eru stífar. Bætið sykrinum smám saman útí og þeytið í u.þ.b 4 mínútur. Bætið sítrónusafa, maizenamjöli og vanilludropum saman við í og hrærið u.þ.b mínútu.
Setjið marensinn í sprautupoka og skerið gat á hann sem er á stærð við krónupening. Sprautið marensnum í fallega toppa á smjörpappírsklædda ofnplötu. Bakið í klukkustund. Slökkvið á ofninum og látið marensinn standa inn í honum í u.þ.b. 2 klst.
Vanillukrem
500 ml mjólk
1 stk vanillustöng
125 gr sykur
50 gr maizenamjöl
6 eggjarauður
50 gr smjör
½ liter rjómi (léttþeyttur)
1 askja jarðaber, skorin
1 askja bláber
Skerið vanillustöngina eftir endilöngu og skafið fræin úr henni. Setjið mjólk í pott og hitið með vanillustönginni og fræjunum rétt undir suðumarki í ca. 5 mín. Slökkvið undir pottinum og látið mjólkina standa í honum í 40-60 mín. Fjarlægið vanillustöngina að því loknu.
Þeytið saman sykur, maizenamjöl og eggjarauður í höndunum þar til létt og ljóst. Setjið í pott og bætið vanillumjólkinni varlega saman við með sleikju. Hitið varlega upp á blöndunni við vægan hita og passið að láta ekki festast við botninn. Notið sleikjuna til að halda blöndunni á hreyfingu. Þegar blandan fer að þykkna pískið þið hana saman með písk í ca. 2 mín og takið svo af hellunni. Bætið smjörinu út í og blandið því saman við með töfrasprota. Setjið í skál og inn í ísskáp í ca. 3 tíma eða þar til kremið er orðið kalt. Blandið létt þeytta rjómanum saman við kremið.
Skerið jarðarberin í fernt og raðið vanillukreminu og marengsinum til skiptis í 2 lög og hellið svo berjunum ofan á toppinn.