Tollvörður sem sat saklaus í gæsluvarðhaldi í 5 vikur árið 2013, grunaður um aðild að stóru fíkniefnamáli, fær greiddar bætur frá ríkinu vegna málsins. Hann sat í gæsluvarðhaldi frá 21. febrúar til 28. mars 2013 og því liðu tæp tvö ár frá því hann losnaði úr gæsluvarðhaldi og þangað til hann fékk bætur.
Maðurinn vill lítið tjá sig um málið en segir þó að fátt komi í staðinn fyrir að sitja í gæsluvarðhaldi allan þennan tíma.
„Ég er feginn að þessum kafla er lokið,“ segir hann.
Sjá einnig: Tollvörðurinn látinn laus
Lögmaður mannsins, Friðbjörn Garðarsson, segir aðspurður að tvö ár séu ekki svo langur tími til að fá botn í svona mál.
„Ekki svona í stóra samhenginu. Það mikilvæga er að ríkið hefur viðurkennt með afdráttarlausum hætti að skjólstæðingur minn var meira en saklaus bendlaður við þetta mál.“
Ekki fæst uppgefið hversu háar bætur maðurinn fékk greiddar en að sögn Friðbjörns hóf maðurinn aftur störf hjá Tollstjóra strax um haustið 2013.
Ríkislögmaður vildi ekki tjá sig um málið þegar Vísir leitaði eftir því.