Belgíski bakvörðurinn Jonathan Hendrickx, sem meiddist í leik KR og FH í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í gær, verður frá keppni næstu vikurnar.
Þetta kom fram í máli Harðar Magússonar, umsjónarmanns Pepsi-markanna, í útvarpsþættinum Akraborginni á X977 í dag.
Í fyrstu var óttast að Hendrickx, sem kom til FH um mitt síðasta sumar, væri ökklabrotinn en svo er ekki. Hins vegar eru liðbönd í ökkla tognuð eða slitin.
Óvíst er hversu lengi Hendrickx verður frá en það verða allavega sex vikur. Í versta falli verður Belginn frá í þrjá mánuði en það kemur betur í ljós eftir tvær vikur.
FH vann stórleikinn gegn KR í gær, 1-3.
