Sport

Þurftu að hætta keppni til að tryggja öryggi kepp­enda

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Frestað í Madríd.
Frestað í Madríd. Oscar J. Barroso/Getty Images

Vegna umfangsmiklu og óútskýrðu rafmagnstruflananna á Íberíuskaga þurfti að hætta keppni á Opna Madrídar-mótinu í tennis á mánudag. Var það gert til að tryggja almennt öryggi keppenda.

Á mánudag sló rafmagni út um allan Spán og Portúgal. Rafmagnsleysið er sagt fordæmalaust en engar vísbendingar eru um tölvuárás eins og grunur lék á um.

Breska ríkisútvarpið greindi frá að mótið hefði stöðvast þegar rafmagnið fór af Madrídarborg enda tennis tæknivædd íþrótt sem notast við vélræna línudómara. Upphaflega átti að halda leik áfram þar sem dómarar mótsins ætluðu að taka að sér línudómgæsluna.

Svokölluð köngulóar-tökuvél (e. spider camera) sem myndar aðalvöllinn á mótinu var hins vegar föst í sjónlínu leikmanna. Um er að ræða myndavél sem myndar völlinn að ofan og er hægt að færa upp og niður sem og í allar áttir. Slíkar myndavélar eru á nær öllum stórum íþróttaviðburðum í dag.

Vegna rafmagnsleysisins var ekki hægt að færa hana en myndavélin ógnaði öryggi leikmanna sem hefðu átt á hættu að reka höfuð sitt í myndavélina. Því ákvað dómarinn á endanum að fresta mótshaldi fram til dagsins í dag, þriðjudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×