Keflvíkingar hafa fundið nýja þjálfara fyrir liðið í Pepsi-deild karla í fótbolta, en í gær ráku þeir Kristján Guðmundsson úr starfi.
Haukur Ingi Guðnason, fyrrverandi leikmaður Keflavíkur, og Jóhann B. Guðmundsson, núverandi leikmaður, voru í dag ráðnir þjálfarar Keflavíkur. Þetta kemur fram á vef Keflavíkur. Gunnar Magnús Jónsson verður aðstoðarþjalfari.
Haukur Ingi er uppalinn Keflvíkingur sem spilaði með liðinu frá 1996-2002 með hléum og svo aftur tímabilið 2009.
Jóhann B. Guðmundsson spilaði fyrst með Keflavík frá 1994-1997 áður en hann hélt í atvinnumennsku, en hann kom heim árið 2008 og hefur spilað með liðinu síðan.
Þeir félagarnir taka við Keflavík í mjög erfiðri stöðu, en liðið er á botni deildarinnar með eitt stig eftir sex umferðir. Það spilaði tvo leiki í deild og bikar við KR á síðustu dögum og tapaði þeim samanlagt, 9-0.
Það varð til þess að Kristján Guðmundsson, sem tók í annað sinn við liðinu snemma sumars 2013, var rekinn úr starfi.
Hvorki Haukur né Jóhann hafa áður starfað sem aðalþjálfarar, en Haukur Ingi var aðstoðarþjálfari Fylkis síðustu tvö ár.
