„Það þarf ekki að segja alþjóð frá því að undanfarin ár hefur erlendum ferðamönnum fjölgað mjög mikið. Hafa menn jafnvel leyft sér að tala um að ferðamenn séu eins og engisprettufaraldur og að það sé ekki líft í miðbæ Reykjavíkur fyrir útlendingum og því sem þeim fylgir,“ segir Sigríður en ferðaþjónustufyrirtækið sem hún vinnur hjá sér meðal annars um allan akstur fyrir fyrirtækið Reykjavík Excursions og akstur Flugrútunnar.
Sjá einnig: Blöskrar viðbrögð lögreglu: Rútuþjáningar íbúa í 101 halda áfram

Sjá einnig: Rútufár á Laugavegi
Sigríður telur hins vegar slíka umræðu sem beinist eingöngu að því hversu truflandi rútuumferð er fyrir miðbæinn skaðlega.
„Þegar talað er af slíku gáleysi er ekki hugsað um það hverju ferðaþjónusta hefur skilað í þjóðarbúið og hversu margir hafa lífsviðurværi sitt af því að starfa í ferðaþjónustu og skyldum greinum. Ferðaþjónusta er atvinnugrein!

Sjá einnig: Rútur stífla götur í miðborginni: Skiljanlegt að íbúum sé misboðið
„Íslendingar gefa sig út fyrir að vera réttlát og friðelskandi þjóð, en nú er búið að gefa út skotleyfi á rútur og friðsælir borgarar umhverfast í merkisbera ímyndaðs réttlætis með því að láta skap sitt bitna á rútubílum!
Fréttir af stórum rútum sem eru fastar í öngstrætum miðborgarinnar eru blásnar út í fjölmiðlum og allir eiga til sögur af rútum sem leggja uppi á stéttum, í merkt stæði opinberra starfsmanna og á stöðum þar sem mikið er um einkabíla. Alls staðar eru rúturnar fyrir.“
Hún segir pirring og reiði borgarbúa smita út frá sér og fæla frá. „Við eigum að sýna umburðarlyndi og vera gestrisin – það væri mikill skaði fyrir þjóðarbúið ef ferðamenn hætta að koma til landsins. Það þarf að viðurkenna þjónustu sem atvinnugrein.“