„Á morgun [í dag] verður lögð fram kæra vegna nauðgunar. Ég staðfesti það að umbjóðandi minn fór á neyðarmóttöku fljótlega eftir atvikið og gögn eru aðgengileg lögreglu vegna þess,“ sagði Kolbrún.

Í yfirlýsingunni kemur fram að maðurinn hafði komið sér í samband við systurnar og sannfærði þær um að kæra vegna nauðgunar myndi valda honum verulegum mannorðshnekki. Í kjölfarið sættist Hlín á að þiggja frá honum miskabætur og lagði Hlín til tiltekna upphæð til að ná sáttum.
Malín starfaði sem milliliður milli þeirra tveggja og tók meðal annars við greiðslu miskabótanna. Maðurinn fór fram á sönnun þess efnis að hann hefði greitt þeim og fékk hana í formi bréfs sem skrifað var á bréfsefni Morgunblaðsins þar sem Malín starfaði sem blaðamaður. Einu eintaki hélt Malín eftir og maðurinn öðru.
Meðal sönnunargagna sem lögregla hefur undir höndum vegna fjárkúgunarkæru á hendur systrunum Hlín og Malín er upptaka af símtali. Á upptökunni er samtal milli Malínar og mannsins sem hefur kært systurnar fyrir fjárkúgun gegn sér.
Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins fóru nokkur símtöl milli mannsins og Malínar eftir að systurnar höfðu komið til hans með þá kröfu að hann borgaði þeim pening. Eftir að hafa hugsað sig um í nokkra daga borgaði maðurinn systrunum tiltekna upphæð.
Yfirheyrðar hvor í sínu lagi
Eftir að fréttir voru sagðar af fjárkúgunarmáli systranna gegn forsætisráðherra ákvað maðurinn að kæra þær. Systurnar voru yfirheyrðar á miðvikudag vegna málsins en ekki hafa fengist upplýsingar um það hvort þær hafi játað að hafa staðið að kúguninni og eins hvort þær hafi kært manninn fyrir nauðgun.
Systurnar voru yfirheyrðar hvor í sínu lagi og stóðu yfirheyrslur yfir þeim fram á kvöld en þeim var sleppt að þeim loknum.
Líkt og áður hefur komið fram voru systurnar handteknar í fyrra skiptið á föstudaginn í síðustu viku eftir að hafa sent eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra bréf, þar sem því var hótað að upplýsingum sem kæmu honum illa yrði lekið í fjölmiðla ef ekki yrðu borgaðar átta milljónir sem koma átti fyrir í tösku á tilteknum stað við Vallahraun í Hafnarfirði. Þar handtók lögreglan systurnar sem í kjölfarið voru yfirheyrðar og játuðu aðild sína að málinu.