Sander Sagosen, vonarstjarna norska handboltans, spilar að öllum líkindum með einhverju af stórliðum Evrópu á næsta keppnistímabili. Þessi tvítuga skytta, sem spilar með Álaborg í Danmörku, er virkilega eftirsótt að sögn umboðsmanns hans.
Umboðsmaður Sagosen er Íslendingurinn Arnar Freyr Theodórsson, handboltamaður sem leikur með ÍH í 1. deildinni, en hann var einn af lykilmönnum Víkingsliðsins sem komst upp úr 1. deildinni í fyrra.
„Það eru mörg lið sem hafa áhuga og ég býst við fréttum fljótlega,“ segir Arnar í viðtali við norska blaðið Adresseavisen.
Aðspurður hvaða lið það eru sem vilja fá Sagosen segir Arnar: „Þú gætir alveg eins nefnt öll stórliðin. Einu liðin sem hafa ekki hringt í mig út af Sagosen eru HC Vardar, Zagreb og Kiel.“
Þó makedónska stórveldið Vardar hafi ekki hringt í Arnar nýlega vill það sem ólmt fá Sagosen í sínar raðir, að því fram kemur í frétt Adresseavisen. Vardar reyndi að fá Sagosen til sín fyrir síðasta tímabil þegar hann var með annan umboðsmann, en Norðmaðurinn hafnaði risasamningi.
Þrátt fyrir að fá hærri laun í austur-Evrópu vill Sagosen halda sig nær vestur-Evrópu til að vera nálægt kærustu sinni Hönnu Bredel-Oftedal sem spilar með Issy í París.
„Þeta snýst um þróun hans sem leikmanns, ekki peninga. Sander þarf þjálfara sem hvetur hann áfram og þá þarf hann að fá að spila,“ segir Arnar Freyr Theodórsson.
Handbolti