Ungverjar unnu frábæran sigur á Svartfellingum í fyrsta leik D-riðilsins, 32-27, á Evrópumótinu í handknattleik sem fer fram þessa dagana í Póllandi.
Staðan í hálfleik var 16-12 og höfðu Ungverjar undirtökin allan leikinn. Bence Banhidi skoraði sjö mörk fyrir Ungverja í leiknum en hjá Svartfellingum var Voko Borozan atkvæðamestur, einnig með sjö mörk.
Góð byrjun hjá lærisveinum Talant Dusjhebaev sem er landsliðsþjálfari Ungverja. Ungverjar leika með Dönum í riðli en Guðmundur Guðmundsson og félagar í danska liðinu mæta Rússum síðar í kvöld.
Þá urðu lærisveinar Dags Sigurðssonar í þýska landsliðinu að lúta í gras fyrir stjörnuprýddu liði Spánverja, 32-29. Staðan í hálfleik var 18-15 fyrir Spánverja og héldu þeir þeirri forystu út leikinn.
Valero Rivera, leikmaður Spánverja, var magnaður í leiknum og skoraði sjö mörk úr sjö skotum. Hjá Þjóðverjum var það Christian Dissinger sem var atkvæðamestur og skoraði hann sex mörk.
Handbolti