Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, ritaði langan pistil um íslenska karlalandsliðið í handbolta sem birtist í gær á fréttavef miðilsins. Þar segir hann að „gullaldartímabili“ íslensks handbolta hafi liðið undir lok þegar Ísland tapaði fyrir Króatíu á EM í Póllandi á þriðjudagskvöldið.
Hann segir að allt frá Evrópumeistarmótinu 2002 hafi „handboltaáhorf í janúar verið jafn reglulegur viðburður og jól, páskar og rigning í júní.“ En að eitthvað hafi breyst í aðdraganda EM í Póllandi og áhuginn verið „einhvern veginn miklu minni.“
Þórður Snær segir að staða íslensks handbolta sé slæm og að það séu fjölmargar ástæður fyrir því. Mögulega sé ein sú að handboltahreyfingin hafi ekki staðið sig nægilega vel í að tryggja aðstæður og umgjörð.
Sjá einnig: Gjaldþrotið gegn Króötum setur framtíð landsliðsins í uppnám
„Líklegra er þó að helsta ástæðan sé sú að Íslendingar eru bara orðnir miklu betri í öðrum íþróttum. Nú á Ísland karlalið á lokakeppnum í tveimur vinsælustu íþróttagreinum heims og þjóðin þarf ekki að sameinast um jaðaríþróttina handbolta til að vonast eftir íþróttalegri upphefð á alþjóðavettvangi,“ ritar Þórður Snær.
Hann segir a handboltaiðkun á Íslandi hafi minnkað vegna uppgangs knattspyrnunnar á Íslandi, sérstaklega yfir vetrarmánuðina eftir að knattspyrnuhallir, gervigras- og sparkvellir hafi rutt sér til rúms. Þá hafi verið stóraukin fjárfesting í knattspyrnuþjálfurum á Íslandi og að tekjur KSÍ séu miklu meiri en öll önnur sérsambönd Íslands til samans.
Sjá einnig: Uppbygging landsliðsins gæti tekið tíma
Þórður Snær vísar í úttekt á síðunnni biggestglobalsports.com þar sem fram kemur að handbolti sé í 25. sæti yfir vinsælustu íþróttir heims og að nýleg úttekt Viðskiptablaðsins sýni mikinn mun á tekjum bestu knattspyrnumanna Íslands og bestu handboltamanna þjóðarinnar.
„Það tekur Gylfa Sigurðsson, tekjuhæsta íþróttamann íslensku þjóðarinnar, tvo mánuði og átta daga að þéna það sem Aron [Pálmarsson] og Guðjón Valur [Sigurðsson] þéna til samans á einu ári,“ ritar Þórður Snær í kafla undir millifyrirsögninni „Handbolti er illa launuð jaðaríþrótt“.
Pistilinn allan má lesa hér.
Handbolti