Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson voru í eldlínunni þegar Rhein Neckar Löwen lék í þýska handboltanum í dag.
Ljónin frá Rhein Neckar mættu Göppingen á heimavelli í dag. Fyrir leikinn var Löwen í 4.sæti deildarinnar og gat nálgast toppliðin með sigri. Göppingen sat hins vegar í 13.sæti.
Skemmst er frá því að segja að Rhein Neckar vann öruggan níu marka sigur þar sem lokatölur urðu 35-26. Staðan í hálfleik var jöfn, 16-16, en leikmenn Löwen spýttu heldur betur í lófana í síðari hálfleik og völtuðu yfir lið Göppingen.
Alexander Petersson skoraði fimm mörk og Guðjón Valur fjögur fyrir heimamenn sem sitja enn í 4.sæti með 12 stig en eiga leik til góða á Kiel og Fusche Berlin sem sitja í sætunum fyrir ofan með 14 stig.

