Carlsen var bersýnilega pirraður þegar hann mætti á fréttamannafundinn og hunsaði meðal annars fréttamenn norskra miðla áður en hann settist í sæti sitt. Eftir að hafa setið þar í um tvær mínútur á meðan hann beið eftir að fundurinn hæfist strunsaði hann út úr salnum.
Hann á yfir höfði sér allt að sjö milljón króna sekt vegna hegðunar sinnar.
Carlsen var hvítur og var aðgangsharður í spilamennskunni í skák næturinnar. Skákin var dramatísk þar sem Carlsen gerði röð mistaka sem Karjakin nýtti sér og kláraði skákina í 52. leik. Undir lokin var Karjakin þó undir mikilli tímapressu þar sem hann hafði spilað fyrstu fjörutíu leikina á tæpum 100 mínútum og átti þá einungis tíu sekúndur eftir á klukkunni.
Fyrstu sjö skákirnar luku með jafntefli og hefur Karjakin því forystu með 4,5 vinningi gegn 3,5. Skákmennirnir munu hvíla í dag en setjast aftur við borðið á morgun. Alls eru leiknar tólf skákir í einvíginu.
Sjá má hvernig skákin spilaðist á síðunni skák.blog.is.
Að neðan má sjá atvikið á fréttamannafundinum þar sem Carlsen strunsaði út.