Varaformaður Sjómannasambands Íslands segist vongóður um að hægt verði að leysa kjaradeilu sjómanna í næstu viku en fundur hefur verið boðaður í deilunni á morgun. Tæplega 200 sjómenn hafa boðað komu sína á mótmæli á meðan fundurinn fer fram.
Verkfall sjómanna hefur nú staðið yfir í rúmar þrjár vikur. Deiluaðilar komu saman til fundar fyrir helgi en honum lauk án árangurs. Næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður í húsakynnum ríkissáttasemjara klukkan eitt á morgun.
Vongóður um lausn í næstu viku
Konráð Þorsteinn Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands, segist ekki vita hvort Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi komi til með að leggja fram nýtt tilboð á fundinum á morgun.
„Ég á ekkert von á neinu sérstöku öðru en því að þeir séu bara tilbúnir til þess að ræða við okkur um þessi mál sem við lögðum fram á fimmtudaginn. Ég geri mér bara vonir um að útgerðarmenn sjái ljósið og semji við okkur. Við göngum þá frá þessu svo skipin geti farið að róa og færa björg í bú,“ segir Konráð.
Hann segist vongóður um að hægt verði að leysa deiluna í næstu viku.
„Að okkar mati er fljótlegt að ganga frá þessu. Þá verður bara í framhaldinu fundað með sjómönnum og samningurinn borinn undir þá. Ef af verður, að sjálfsögðu. Allt með fyrirvara,“ segir Konráð.
Heimskulegt að setja lög á verkfallið
Tæplega 200 sjómenn hafa boðað komu sína á Facebook á mótmæli fyrir utan skrifstofu ríkissáttasemjara klukkan eitt á morgun. Þar kemur fram að það standi til að setja lög á verkfall sjómanna.
Hefur þú einhverjar áhyggjur af því að það verði sett lög á þetta verkfall?
„Nei. Ég ætla ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Það væri það heimskulegasta sem yrði gert, að setja lög á verkfallið,“ segir Konráð.

