Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú munu fara í opinbera heimsókn til Noregs í boði Haralds V. Noregskonungs 21.-23. mars næstkomandi. Í ferðinni munu forsetahjónin heimsækja Ósló og Bergen.
Þetta er fyrsta heimsókn þjóðhöfðingja Íslands til Noregs í tvo áratugi. Meðal þess sem forsetahjónin munu aðhafast er að heimsækja norska þjóðarbókasafnið og þá mun Guðni halda fyrirlestur í háskólanum í Ósló. Erna Solberg, forsætisráðherra landsins, mun einnig taka á móti hjónunum og hafa kvöldverð þeim til heiðurs.
Í tilkynningu á heimasíðu norska forsætisráðuneytisins segir að markmið heimsóknarinnar sé meðal annars að tryggja þau vinabönd sem lengi hafa ríkt á milli Íslands og Noregs.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.