Jong-nam, sem bjó lengst af erlendis, lést í sjúkrabíl á leiðinni á spítala en grunur leikur á að morðið sé runnið undan rifjum yfirvalda í Norður-Kóreu. Fjórir eru í haldi vegna morðsins, indónesísk kona, malasískur karlmaður, víetnömsk kona og norður-kóreskur karlmaður. Greint var frá því fyrir helgi að indónesíska konan hélt að hún væri að taka þátt í sjónvarpshrekk.
Myndbandið, sem sjá má hér að neðan, sýnir tvö sjónarhorn á árásinni sem leiddi til dauða Jong-nam. Það er úr eftirlitsmyndavélum á flugvellinum og á því sést hvar kona ræðst aftan að manni sem talið er að sé Jong-nam. Konan virðist setja hendurnar yfir andlitið á honum og labba síðan í burtu auk þess sem önnur kona sést fara af vettvangi.
Þá sést líka hvar Jong-nam, klæddur í bláa skyrtu og gráan jakka, skjögrar um flugvöllinn þar sem hann reynir að þurrka sér í framan og biðja um aðstoð frá starfsfólki flugvallarins.
Hér að neðan má sjá myndbandið eins og það er birt á vef breska dagblaðsins The Guardian en rétt er að vara viðkvæma við því.