Skoðun

Næsta stig endurreisnar

Sigurður Hannesson skrifar
Efnahagsleg endurreisn Íslands hefur gengið vonum framar eins og flestir mælikvarðar bera með sér. Hins vegar tekur lengri tíma að endurvekja fullt traust í samfélaginu. Nýjar fréttir af sölu Búnaðarbankans á sínum tíma eru ekki til þess fallnar að flýta því ferli og minna okkur svo sannarlega á að vanda þarf til verka. Bankar eru í miðju hagkerfisins og við eigum öll snertifleti við banka í daglegu lífi okkar á einn eða annan hátt. Þess vegna skiptir máli að fjármálakerfið njóti trausts.

Fyrsti stig endurreisnar fjármálakerfisins snerist um að halda greiðslumiðlun gangandi og stofna nýja banka á grunni þeirra föllnu. Annað stig snerist um fjárhagslega endurskipulagningu. Vanskil voru há, skuldir heimila og fyrirtækja þurfti að endurskipuleggja auk þess sem vinna þurfti úr ýmsum eignum sem ekki tengdust kjarnastarfsemi bankanna. Þessu verkefni er nú lokið. Næsta stig endurreisnar fjármálakerfisins snýst um stefnumörkun til framtíðar. Hvaða starfsemi bankarnir ætla að bjóða upp á, hvernig efnahagsreikningurinn á að líta út og að þeir þjóni almenningi og atvinnulífi á hagkvæman hátt.

Regluverk og umgjörð almennt um fjármálakerfið hefur verið stórbætt á síðustu árum og tekur mið af alþjóðlegri þróun. Að sumu leyti eru fjármálastarfsemi meiri skorður settar hér á landi en annars staðar. Stjórnvöld þurfa á hverjum tíma að meta hvort þörf sé á breytingum. Að sama skapi þurfa þau að móta sýn um framtíð fjármálakerfisins.

Frá stofnun bankanna þriggja hafa virkir fjárfestar ekki komið að þeim. Hluthafar hafa annaðhvort ekki mátt skipta sér af rekstri þeirra, eins og í tilfelli kröfuhafa, eða ekki viljað það sökum armslengdarsjónarmiða. Til lengri tíma litið er það óheppilegt. Það þarf virka fjárfesta að bönkum sem og að öðrum fyrirtækjum. Hluthafa sem láta sig rekstur banka og framtíð þeirra varða. Fjárfesta sem vilja taka þátt í næsta stigi endurreisnar fjármálakerfisins, byggja upp traust og spila eftir settum reglum. Gagnsæi er forsenda trúverðugleika - og traust forsenda viðskipta. Það gildir meðal annars um eignarhald og fyrirætlanir eigenda.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×